Eva Dröfn Guðmundsdóttir

Landstjórnarfulltrúi UVG

Þann 26. mars síðastliðinn átti sér stað merkileg bylting. Flest ykkar hljóta að kannast við Free the nipple, eða brjóstabyltinguna. „Hashtaggið“ #freethenipple sást um allan veraldarvefinn og í kjölfar Free the nipple-dagsins studdu ungmenni, ásamt konum og körlum á öllum aldri, málstaðinn á ýmsa vegu. Þennan merka dag tók ég mig til og mætti í skólann, klædd á máta sem mér hefði aldrei fyrr dottið í hug. Í hvert skipti sem ég mætti vinum, vinkonum eða kunningjum mínum efldist styrkurinn, styrkurinn sem hafði gosið upp daginn áður, þegar Twitter stóð bókstaflega í ljósum logum. Sumir tóku þátt, aðrir ekki, en langflestir studdu málstaðinn. Knús, hrós, gleði og valdefling. Í loftinu var ósýnileg orka sem dreif okkur öll áfram og studdi við bakið á okkur.

 

Berbrjósta um bæinn

Um hádegisbilið kom upp sú hugmynd meðal nokkurra Kvennaskólastelpna að ganga berbrjósta um bæinn. Fyrstu viðbrögð við uppástungunni voru misjöfn og margar okkar voru tvístígandi en að lokum tókum við okkur saman, 12 stelpur, og ákváðum að kýla á þetta! Þegar kom að því að fara vorum við ákveðnar og spenntar. Það tók smá kjark að fara úr að ofan en þegar við vorum komnar örfáa metra frá skólanum höfðum við allar fleygt okkur úr bolum og peysum. Við örkuðum niður Bankastræti og Laugaveg og vinur okkar tók gönguna upp. Göngunni lauk við Alþingishúsið þar sem við varðveittum minninguna með því að festa atburðinn á mynd.

 

Gleði og styrkur

Aldrei hef ég upplifað neitt jafnvaldeflandi! Konur og karlar um allan miðbæinn tóku undir og öskruðu „Já!“ okkur til stuðnings! Ein kona kom út og beraði sig með okkur og ferðamenn tóku myndir! Að vísu var ein kona sem „búaði“ en það gerði okkur bara enn ákveðnari! Gangan einkenndist af gleði og styrk og sjaldan hef ég verið jafnörugg með sjálfa mig!

 

Hafði byltingin áhrif?

Það fór varla framhjá neinum fyrir hvað byltingin stóð og hvernig dagurinn gekk fyrir sig. Ég ætla því ekki að þylja upp ástæðurnar fyrir því að Free The Nipple sé ein merkasta uppákoma síðari tíma. Mig langar heldur að varpa fram spurningunni: Hafði þessi bylting einhver áhrif á sjálfsmeðvitund fólks og þá hvaða?

 

Er ég nógu sæt?

Frá því ég man eftir mér hef ég haft áhyggjur af því hvernig ég líti út. „Er ég nógu sæt? Hvernig get ég málað mig til að ég líti út fyrir að vera fallegri en ég er? Er ég flottari með ljóst eða dökkt hár? Hvernig get ég klætt mig til að virðast grennri? Af hverju er ég með lítið sjálfstraust en aðrir fullir sjálfstrausts? Af hverju eru brjóstin á mér ekki jafnflott og á hinum stelpunum?“ Eitt það merkilegasta sem ég lærði á þessum degi var að ekkert af þessu ákvarðar hver ég er eða hvert virði mitt er nema ég leyfi því að gera það.

 

Fyrir hvern?

Fyrir hvern þarf ég að vera mjó og sæt, með falleg brjóst, ljóst (eða dökkt) hár og í réttum fötum? Af hverju má ég ekki bara vera sátt við mig eins og ég er? Af hverju hefur skoðun annarra áhrif á mig? Í samfélagi sem okkar er stanslaus áróður um að vera svona, ekki hinsegin. Kaupa þetta, ekki hitt. Finnast þetta, ekki hitt. Stanslaus innræting. Maður er hættur að hugsa sjálfstætt og farinn að fljóta með samfélagslegum kröfum án þess að fatta það.

 

Stöndum með sjálfum okkur!

Í okkar samfélagi er auðvelt að upplifa mikla skömm á líkamanum. Það er skammarlegt ef það sést í brjóstahaldarann eða geirvörturnar. Það er auðvelt að skammast sín ef það sést í „ófullkomnar“ mjaðmir, fellingar eða slit. Þegar ég áleit brjóst annað en venjulegan líkamshluta fannst mér ég þurfa að skammast mín fyrir þau af því þau voru ekki eins og brjóstin sem var búið að kenna mér að væru „fullkomin“ brjóst. Sýn mín á eigin líkama er nú breytt til frambúðar. Brjóstin á mér eiga ekki að vera einhvern veginn öðruvísi en bara akkúrat eins og þau eru! Á þessum degi sá ég brjóst og líkama af öllum gerðum, meðal annars minn eigin! Við komum úr felum og sögðum berskjölduð og stolt: „Þetta er ég, og ég er sátt(ur)!“ Svo ég segi: Komið úr felum og látið í ykkur heyra. Leyfið ljósi ykkar að skína. Hættum að lúta viðmiðum annarra og stöndum með sjálfum okkur!

 

Minn líkami, mín ákvörðun

Þessi dagur kenndi mér að ég ein hef valdið til að ákveða hvað ég er tilbúin til að gera. Minn líkami, mín ákvörðun. Í karllægu samfélagi er ekki skrítið að kvenmenn lúti þeirra viðmiðum. Kröfurnar sem gerðar eru til kvenna í dag (og reyndar líka til karla) eru óraunhæfar og geta verið skaðlegar! Þær þjóna engum tilgangi fyrir þau sem verða fyrir þeim en geta hins vegar gagnast þeim sem gera þær. Í þessu tilfelli eru það oft karlar. Á móti kemur sú innræting að þeim finnist þeir eiga að taka að sér ákveðið hlutverk gagnvart konum. Klámvæðingin á að sjálfsögðu sinn hlut í þessu. Hlutgerving kvenna fylgir klámvæðingunni nefnilega fast á eftir.

 

Engin skömm

Það er ekki nóg með að þessi dagur hafi breytt ímynd minni af líkama mínum heldur var þetta gífurleg vakning fyrir allt samfélagið. Umræða um femínisma og ójöfnuð jókst. Samstaðan og krafturinn fylgdu á eftir. Fólk kom sér í framkvæmdastöður og gerði breytingar. Fleiri hlutir komu upp á yfirborðið er ungmenni sviptu hulunni af vandamálum sínum og tjáðu sig um þau á samfélagsmiðlum. Engin skömm. Við erum mennsk og eigum það öll sameiginlegt. Í stað þess að búa í felum og fela líkama, vandamál og skoðanir er þeim tekið opnum örmum og fjölbreytileikanum fagnað!

 

Ég er frjáls

Á þessum degi hætti ég að hugsa sjálfa mig út frá öðrum. Hætti að fórna mínum gildum til að þóknast annarra. Hætti að hugsa út í hvað öðrum, þá sérstaklega strákum, fyndist um mig og minn líkama og þar með hætti ég að kyngera sjálfa mig í öllum samskiptum við hitt kynið. Hætti að hugsa um brjóstin á mér sem ófullkomin því þau líta ekki út eins og óraunhæf ímynd kvenmannsbrjósta. Ég fór að vera ég á mínum eigin forsendum. Ef ég vil vera ber að ofan, þá læt ég ekki samfélagsleg höft eða minn eigin haus stöðva mig í því og gera mig óörugga. Núna er ég með valdið. Ég neita að leyfa ósýnilegum viðmiðum að láta mér líða illa með sjálfa mig. Þau hefta mig ekki lengur! Ég er frjáls og það eru brjóstin á mér líka!