Sigrún Birna Steinarsdóttir

Tengiliður UVG á Höfn í Hornafirði

Það er gaman að vera barn á Hornafirði. En að vera ung manneskja hér er aftur á móti ekkert sérlega spennandi. Við Framhaldsskólann í Austur-Skaftafellssýslu eru um hundraðogtuttugu nemendur, að öllum fjarnemum og sambærilegum meðtöldum.

Við erum hér heima í framhaldsskóla. Svo förum við burtu í háskóla. En af hverju ættum við að koma aftur heim? Hvað er hérna fyrir okkur? Hér eru engin atvinnutækifæri fyrir okkur, enginn leigumarkaður og okkur líður eins og ekki sé gert ráð fyrir því að við viljum koma aftur heim fyrr en við erum orðin hálffertug eða eldri. Við vitum alveg að það eru tækifæri annars staðar. Hvers vegna ættum við þá að koma heim þegar ekkert er gert fyrir okkur?

Ef að Hornfirðingar vilja að bærinn eigi að standa fyrir sínu að einhverjum áratugum liðnum og til framtíðar verða þeir að gefa okkur unga fólkinu tækifæri. Við verðum að fá að taka þátt. Eldri kynslóðir í sveitarfélaginu geta einfaldlega ekki ætlast til þess að hægt sé að henda okkur bara í djúpu laugina þegar þær nenna ekki að standa í þessu lengur, eftir að okkur hefur hvorki boðist nein þátttaka í málefnum sveitarfélagsins, atvinnutækifæri á heimaslóðum né að geta búið þangað til í eigin sveitarfélagi nema í húsnæði í einkaeigu.

Við erum ekki vitlaus. Við vitum alveg hvað er í gangi annars staðar í samfélaginu í dag. Ef Hornarfjörður ætlar að breytast í samræmi við það – ekki bara í dag, heldur til framtíðar – verður hann að sýna meiri metnað og skila betri árangri. Það gerir hann aðeins með því að hafa okkur með í ráðum.
Við erum jú framtíðin. Er það ekki?