Daníel Arnarsson

Viðburðastjóri UVG

Samkvæmt pýramída Maslows hefur manneskja ákveðnar, og miklar, þarfir. Grunnþarfirnar eru neðst í pýramídanum og svo raða aðrar þarfir sér hver af fætur annarri ofan á. Ekki er hægt að uppfylla þarfirnar nema að byggja á traustum grunni, það er, við náum aldrei þörfinni fyrir ofan nema við uppfyllum þörfina sem er fyrir neðan. Fyrir ofan allra nauðsynlegustu þarfirnar – mat, vatn, skjól og svefn – er öryggi. Þar erum við að tala um heilsu, fjölskyldu og samfélagslegan stöðugleika. Það má kannski taka það fram að pýramídinn byggist á fimm þörfum og því er undarlegt að upplifa það, í vestrænu samfélagi, að komast ekki upp fyrir tvö stig á pýramídanum.

Þegar manneskjur upplifa félagslegan óstöðugleika eða ógn við sjálfar sig í samfélaginu bregðast þær mismunandi við. Sumt fólk fer í vörn eða sýnir grimmilega hegðun á meðan aðrir verða sorgmæddir eða máttlitlir. Þá getur óstöðugleiki verið með ýmsu móti, til dæmis andleg eða líkamleg veikindi, sorg vegna áfalls, að upplifa sig utanveltu í samfélaginu eða að geta ekki verið sá sem maður er.

Ákveðnir aðilar hafa undanfarið kastað fram skoðunum sínum varðandi samkynhneigð. Hvort sem vísað sé til innrætingar samkynhneigðar eða samkynhneigðs kynlífs þá hefur fólk myndað sér ákveðnar skoðanir og nú tjáð þær á útvarpsstöð í Nóatúni. Einnig hefur söngvaskáld nokkuð stofnað Facebook-hóp þar sem fólk með sömu skoðanir hefur safnast saman í þeim tilgangi að „vernda“ börn.

En fyrir hverju þarf að vernda börnin? Fyrir samkynhneigð? Halda einstaklingarnir sem eru í þessum hópi að samkynhneigðir geri börnum illt? Heldur þetta sama fólk að samkynhneigð sé val? Að hún sé kennd? Þarf ekki frekar að vernda börn fyrir þeim sem hafa þrönga sýn á samfélagið og breiða út hatursfulla orðræðu?

Ákváðum við einhvern tímann að gerast samkynhneigð eitthvað frekar en gagnkynhneigt fólk ákvað að hrífast af hinu kyninu? Hefði einhver fræðsla breytt því? Er fólk virkilega svo óvisst um kynhneigð sína, í sínu eigin skinni, að hræðast það að aðrir geti haft slík áhrif á sig eða aðra?

 

Hið kristna og Biblían

Kristið ljóðskáld, sem hringir ótt og títt inn á útvarpsstöðina, er harðlega á móti samkynhneigðum og vísar gjarnan í Biblíuna máli sínu til stuðnings. Eflaust er ljóðskáldið að vísa í hinu frægu setningu Biblíunnar þar sem fram kemur að maður skuli ekki liggja með öðrum manni.
Mér hefur alltaf þótt kristni áhugaverð – að ákveða að trúa á Biblíuna. Margar bækur voru skrifaðar fyrir tíð Biblíunnar og sú mæta bók ber þess einmitt merki að margir menn af ólíkum uppruna hafi skrifað hana. Sumir með bakgrunn stóuspekinnar og aðrir undir áhrifum platonisma. Það er því einkennilegt að halda því fram að Biblían sé eitthvað merkilegri en aðrar heimildir frá þessum tíma. Það er val að trúa því.

Hin kristnu gildi eru í sjálfu sér ekki sérlega kristin, það er að segja, þau eru ekki sérlega trúarleg heldur eru þau einfaldlega lífspeki og siðfræði sem hafa verið í mótun í hinum vestræna heimi öldum saman og má um margt rekja uppruna þeirra til grískrar heimspeki. Vegna þess að við höfum val er ótrúlegt hve margir velja að styðjast við Biblíuna sem málsvörn fyrir hatursfullum skoðunum sínum. Af hverju veljum við ekki að styðjast við Cicero? Shakespeare? J.K. Rowling? Er þar ekki nægilegt magn haturs og afsakana til að halda öðru fólki niðri?

Ég gæti haldið endalaust áfram að tala um Biblíuna. Það er nógu mikið af efni þar sem fær mann til að hugsa. Til dæmis er jörðin flöt í Biblíunni, konur eiga helst ekki að tala og fleira þvíumlíkt. Auðvitað er Biblían full af slíku efni, sem við hlæjum að á okkar tímum, þar sem hún var skrifuð fyrir svo löngu síðan! Nú höfum við vitanlega nýjar upplýsingar og aðra heimssýn sem jafnframt hefur áhrif á okkar eigin reynslu, hugsanir og gjörðir. Við þurfum nefnilega að setja hlutina í sögulegt samhengi. Biblían á ekki að vera afsökun fyrir hatursfullri orðræðu heldur eitthvað sem gefur okkur dýpri innsýn í veruleika sem var til staðar fyrir þúsundum ára.

En Biblían er ekki eini orsakavaldurinn sem knýr þetta hatur áfram. Margar ranghugmyndir eru uppi um samkynhneigð sem eiga ekki við nokkur rök að styðjast eða styðjast jafnvel við rangar og gamlar upplýsingar.
Svo virðist sem kynlíf hinsegin fólks, sérstaklega samkynhneigðra karlmanna, veki mikinn áhuga ljóðskáldsins, söngvaskáldsins og hlustenda útvarpsstöðvarinnar. Það er undarlegt að hafa skoðanir og jafnvel áhyggjur af kynlífi annarra. Greinilega þarf að gera röska gangskör í kynfræðslu því það er ekki eðlilegt að hafa áhyggjur af kynlífi annarra svo fremi sem samþykki sé fyrir því hjá báðum (eða öllum) aðilum sem það stunda. Að öðrum kosti ætti kynlíf fólks ekki að koma neinum öðrum við.

 

Samkynhneigð á ekkert skylt við barnaníð

Árið 1977 stofnaði Anita Bryant samtök sem hétu ,,Save Our Children, Inc.“ Samtökin notaði hún til að berjast á móti lögum sem kváðu á um að mismunun vegna kynhneigðar yrði bönnuð. Þetta kann að hljóma kunnuglega – að vernda börnin. Bryant vildi meina að samkynhneigðir misnotuðu börn. Það er þyngra en tárum taki að þurfa að lifa við það að fólk haldi að ég, sem samkynhneigður maður, sé sökum þess líklegri en aðrir til að brjóta á börnum. Ég get lifað við það að fólk gagnrýni eða hæðist að mér fyrir kynhneigð mína. Að halda því hins vegar blákalt fram að ég sé líklegri til að misnota börn en aðrir? Það særir.

Margar greinar hafa verið skrifaðar um að samkynhneigðir karlmenn séu líklegri til að misnota börn. Greinarnar eru stundum settar vel upp og benda jafnvel á margar heimildir. Þegar við skoðum greinarnar nánar þá kemur þó í ljós að þær eru settar fram á mjög brenglaðan hátt, rannsóknirnar tengjast vart barnaníði heldur einhverju allt öðru og fræðimennirnir gefa sér niðurstöðurnar yfirleitt fyrirfram. Frægastur þeirra er án nokkurs vafa Paul Cameron. Vandamál Camerons er að rannsóknir hans eru svo gallaðar að aðrir fræðimenn hafa eiginlega ekki orku í að svara honum.

Það eru engar rannsóknir til sem sanna það að samkynhneigðir misnoti börn né að samkynhneigð geri börnum illt. Það sem gerir ungu fólki þvert á móti illt er að njóta ekki viðurkenningar eða að þurfa að lifa við ofbeldi.

Þarf að verja börn fyrir níði af hálfu samkynhneigðra manna frekar en það þarf að verja konur fyrir nauðgunum af hálfu svartra karlmanna? Væri ekki nær að verja börn fyrir barnaníðingum, hverjir sem þeir kunna að vera? Að verja konur (og karla) fyrir nauðgurum, hverjir sem þeir kunna að vera?
Beinum athyglinni frekar að hinum raunverulega vanda í stað þess að finna átyllur sem hafa ekkert með vandamálið að gera. Barnaníðingur er barnaníðingur. Allt annað er aukaatriði. Hvítir menn bera ekki ábyrgð á því þegar hvítur maður fremur morð. Sömuleiðis bera samkynhneigðir menn ekki ábyrgð á því ef samkynhneigður maður níðist á barni. Ekkert tengir glæpamenn með svo afgerandi hætti nema sjálfur glæpurinn.

 

Veruleiki hinsegin fólks

Fjórðungur hinsegin fólks hefur orðið fyrir ofbeldi vegna kynhneigðar sinnar og þriðjungur ungs hinsegin fólks hefur gert tilraun til að taka eigið líf. Hinsegin ungmenni eru þrefalt líklegri til að upplifa óöryggi en aðrir og níu af hverjum tíu hafa verið áreitt eða beitt ofbeldi. (Þess ber að geta að tölurnar eru fengnar frá Bandaríkjunum.)

Það er því búið að sanna að samkynhneigð eigi nákvæmlega ekkert skylt við barnaníð og því sé engin þörf á því að vernda börn fyrir samkynhneigð sérstaklega. Það er einnig búið að sanna að ungu hinsegin fólki líði að jafnaði verr heldur en öðrum. Við þurfum ekki einu sinni að ræða kynlíf samkynhneigðra því það kemur engum við nema þeim sem það stunda.

Fyrirfram ákveðnar skoðanir eru eðlilegar. Fordómar eru í raun líka eðlilegir því þeir þýða að manneskja viti ekki betur. Hún byrjar þar af leiðandi að dæma án þess að hafa nægar upplýsingar. Vill fólk mögulega ekki þessar upplýsingar? Eða er þvermóðskan algjör og fólk einfaldlega neitar upplýsingunum? Eða er kannski eitthvað alvarlegara að?

Ást er besta vopnið gegn hatri og því vil ég senda vænan skammt af ást til allra þeirra sem halda því fram að samkynhneigð sé slæm eða val. Ég vil senda ljóðskáldinu, söngvaskáldinu og hlustendum útvarpstöðvarinnar í Nóatúni mikla ást. Það getur ekki verið að upplýsingar vanti heldur hafa þau ákveðið að vera hatursfull og því er erfitt að rökræða eða miðla upplýsingum til þeirra sem svara engum rökum.
Fólk er það sem það er.