Björn Reynir Halldórsson

Ritstjóri Íllgresis 2014

Mikil stórtíðindi áttu sér stað á nýafstöðnum landsfundi Samfylkingarinnar síðastliðinn marsmánuð þegar Samfylkingin lýsti yfir andstöðu við olíuleit. Það var löngu kominn tími til að einhver stjórnmálaflokkur legðist gegn olíuvinnslu á Drekasvæðinu enda hefur um árabil verið ljóst að markmiðið með henni – að útvega olíu til brennslu – stangist kyrfilega á við baráttu jarðarbúa gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Enn fremur hefur þetta mál verið að laumast um einhvers staðar í kerfinu allt frá dögum Valgerðar Sverrisdóttur í iðnaðarráðuneytinu án þess að hljóta nægilega umræðu í þjóðfélaginu. Kolbrún Halldórsdóttir lýsti yfir andstöðu sinni við áformin rétt fyrir þingkosningar 2009 og uppskar yfirlýsingu um að VG hefði ekki tekið afstöðu til málsins og útstrikanir frá fjórðungi kjósenda hreyfingarinnar í sínu kjördæmi. Þetta var árið 2009 – árið þegar vonir voru bundnar við að COP15 ráðstefnan í Kaupmannahöfn myndi fela í sér bindandi samkomulag um að taka á loftslagsvandanum. Því ætti það að hafa verið stjórnmálamönnum ljóst á þeim tíma að olíuleit væri ekki æskileg en loftlagsmál voru í sjálfu sér ekki áberandi í íslenskri stjórnmálaumræðu, höfðu aldrei verið það og eru það í raun og veru ekki enn þann dag í dag. Þegar Steingrímur J. Sigfússon vék sér snyrtilega undan því að svara spurningum Kristjáns Más Unnarssonar um sama mál fyrir kosningar 2009 virtist lítið benda til þess að hann sjálfur yrði maðurinn sem sæist brosandi á fréttamyndum með Gunnlaugi Jónssyni, Terje Hagevang og öllum hinum körlunum – já, og eigum við að ræða hvað konur standa almennt framar þegar kemur að umhverfismálum? – rétt fyrir þingkosningar 2013.

 

Skuldbundin til loftslagshlýnunar

Undirritun tveggja sérleyfa árið 2013 var því mikið áfall fyrir Ísland sem annars náði fram miklum umbótum í umhverfisverndarmálum. Lengra var gengið í loftslagsskuldbindingum, rammaáætlun var samþykkt sem og ný náttúruverndarlög, svo dæmi séu tekin. Þriðja leyfið fylgdi svo þegar ríkisstjórn, sem er ekki með nokkru móti treystandi fyrir umhverfismálum, var tekin við. Með þessum þremur sérleyfum var Ísland komið í óþægilega stöðu: búið að skuldbinda sig í grófum dráttum til þess að auka framlag sitt til loftslagshlýnunar. Því er spurningin sem við stöndum frammi fyrir í dag hvort hægt sé að bakka út úr þessum skuldbindingum og þá hvernig.

 

Viðbrögð stjórnarmeirihlutans

Það var því fyrirsjáanlegt að fylgismenn olíuleitar bentu á þær skuldbindingar sem þegar hafa verið gerðar og dæmdu stefnubreytingu Samfylkingarinnar ótrúverðuga. Það kemur í sjálfu sér ekkert á óvart að Jón Gunnarsson furði sig á stefnubreytingunni enda hefur maðurinn aldrei verið þekktur fyrir annað en að vilja menga sem mest hann má. Viðbrögð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar voru öllu áhugaverðari. Maðurinn, sem skiptir um skoðanir eins og um nærbuxur, sagði stefnubreytingu Samfylkingarinnar senda slæm skilaboð, jafnvel þó hann hafi sjálfur lofað heiminum öllu fögru í baráttunni gegn loftslagsbreytingum.

 

Talandi um pólitískan ómöguleika

Ráðamönnum virðist pólitískt ómögulegt að átta sig á því að hér sé um að ræða stefnubreytingu sem markist af aukinni vitund um ákveðin mál. Mál sem engan veginn hafa hlotið nægilega athygli í íslenskum stjórnmálum: loftlagsmálin. Þessi stefnubreyting er ekki tilkomin á einni nóttu eftir að vindáttin breyttist heldur eru sífellt fleiri að átta sig á því að olíuleit við Drekasvæðið er á allan hátt óskynsamleg. Það þrætir heldur enginn fyrir það að VG og Samfylkingin eigi stóra sök á því að hafa veit þessi leyfi. Vitundarvakningin er að sama skapi ekki bundin við Ísland. Sífellt fleiri átta sig á að steinaldarorkugjafar séu ekki sjálfbærir, valdi umhverfistjóni sem sjálft valdi fjölda manns hungri og neyði fólk til að flýja heimili sín. Meira að segja kapítalískt batterí á borð við Alþjóðabankann er farið að átta sig á því að loftslagsbreytingar séu mikil ógn við hagkerfi heimsins.

 

Landsbyggðarspilið

Þrátt fyrir það tala ráðamenn eins og landsbyggðin muni lepja dauðann úr skel ef ekki sé haldið í olíuleit. Bæjarstjórn Fjarðabyggðar er meira að segja búin að spila landsbyggðarspilinu sínu gegn Samfylkingunni. Enn á ný er farið út í að tala um einhverja töfralausn sem bjarga eigi ákveðnum byggðarlögum á norðan- og austanverðu landinu án þess að skeyta neitt um heildarmyndina og kostnaðinn sem fylgir töfralausninni. Enn fremur er verið að ýta undir væntingar til einhvers sem við vitum ekki einu sinni hvort að sé til. Orðræðan er meira að segja farin að minna á orðræðuna um Kárahnjúkavirkjun.

 

Möguleikarnir í stöðunni

Það getur vel verið að þegar upp sé staðið hafi engin olía fundist. Þá höfum við verið að deila um ekkert. Það er meira að segja búið að skila fyrsta sérleyfinu, ef út í það er farið. Hugsanlega er vert að bíða og sjá hvort að þeir tveir leyfishafar sem eftir eru muni gefast upp og skila leyfunum. Þá væri málið úr sögunni nema stjórnvöld þrjóskist við að halda glansvoninni sinni til streitu. En ef ekki er spurning hvernig Ísland geti losað sig undan skuldbindingum sínum. Verður hægt að semja við leyfishafana eða er einfaldlega hægt að draga leyfin til baka og svara þá mögulega til saka fyrir dómstólum landsins? Hugsanlega hlýst fjárhagslegt tjón af. En það yrði alltaf minni skaði en ef öll olían undir yfirborði jarðar yrði brennd. Kannski gætu Eykon þá fengið hlutdeild í endurnýjanlegum orkugjöfum (þá helst vindorku sem verulega hefur verið vanmetin hér á landi) og einbeitt sér frekar að því besta en „næstversta“ (en það eru vinsæl rök olíusinna að olía sé skárri en kol).
Boltinn er hjá Vinstri grænum

Hvað sem öðru líður er ljóst að olíuleitin við Drekasvæðið endurspeglar gamla tíma. Eldri kynslóðin fylkir sér á bak við hreppapólitík á meðan sú yngri er meðvitaðri um að við séum kominn að þeim tímapunkti að mannkynið þurfi að fara að græða sárin sem það hefur valdið jörðinni. Jafnframt að það sé mögulegt að skapa störf án þess að náttúran þurfi alltaf að borga brúsann. Stefnubreyting Samfylkingarinnar er til marks um það. Núna er boltinn hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, sem heldur sinn landsfund í október.