Védís Huldudóttir

Alþjóðafulltrúi UVG

Þegar við tölum um ofbeldi erum við oftast að tala um líkamlegt ofbeldi og stundum kynferðisofbeldi. En staðreyndin er sú að það eru til margar tegundir ofbeldis og flest höfum við ekki þekkinguna til þess að bera kennsl á þær. Þetta getur leitt til þess að fólk einfaldlega geri sér ekki grein fyrir því að það sé að verða fyrir ofbeldi. Auk kynferðis- og líkamlegs ofbeldis er líka til tilfinningalegt, sálfræðilegt, félagslegt, fjárhagslegt og munnlegt ofbeldi. Sumir þessara flokka skarast og oft beitir sami aðilinn mörgum tegundum ofbeldis í einu. Allar þessar tegundir ofbeldis hafa raunveruleg áhrif á þolandann sem geta enst í langan tíma. Áhrifin hverfa jafnvel aldrei að fullu. Samt getur þolandinn verið algjörlega ómeðvitaður um að það sem gerðist hafi verið ofbeldi. Í langan tíma var ég ein af þessum þolendum.

 

Tilfinningalegt og sálfræðilegt ofbeldi eru oft rædd samtímis undir heitinu „andlegt ofbeldi“ (e. emotional abuse), enda á það margt sameiginlegt. Ég gerði mér fyrst grein fyrir því að ég hefði verið í ofbeldissambandi þegar ég sat minn fyrsta kynjafræðiáfanga í háskólanum. Andlegt ofbeldi kom upp og ég kannaðist við allt of mörg einkenni þess. Þá voru liðin nokkur ár síðan umræddu sambandi lauk, en það hafði enst í um það bil eitt og hálft ár. Áður en ég byrjaði í kynjafræði hafði ég ekki hugmynd um að andlegt ofbeldi væri til og vissi ekki hvernig ég ætti að bregðast við þessum nýju upplýsingum. Ég hafði reyndar verið búin að gera mér grein fyrir því að sambandið hafi verið óheilbrigt enda hélt hann framhjá mér oftar en einu sinni. En þegar ég fór að skoða upplýsingar um andlegt ofbeldi á netinu öðlaðist ég nýjan orðaforða sem leyfði mér að tala um og benda á atriði sem mér hafði aldrei áður tekist að gera sjálfri mér eða öðrum fyllilega grein fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hefði orðið fyrir miklu tilfinningalegu ofbeldi, nokkru sálfræðilegu og auk þess einhverju félagslegu ofbeldi.
Tilfinningalegt ofbeldi er ekki bara það að særa tilfinningar einhvers. Það er alveg jafnalvarlegt og aðrar tegundir ofbeldis og lýsir sér meðal annars í reglulegri og óvelkominni gagnrýni, niðurlægingu, að stjórna þolandanum, að gera lítið úr tilfinningum hans og upplifunum, að hunsa þolandann, útiloka hann og segja honum að tilfinningar, hugsanir og hugmyndir hans séu heimskulegar eða rangar. Allt þetta upplifði ég endurtekið án þess að gera mér grein fyrir því að um ofbeldi væri að ræða.

 

Algeng tegund sálfræðilegs ofbeldis er það sem er kallað „gaslömpun“ (e. gaslighting). Það er þegar gerandi afneitar upplifunum þolandans og lætur hann efast um skynjun sína á raunveruleikanum, til dæmis með því að neita því að eitthvað hafi gerst sem gerðist víst. Auk þess getur það lýst sér þannig að gerandi kalli þolanda „klikkaðan“ eða „geðveikan“ þegar þolandi gagnrýnir hann, geri lítið úr afrekum þolandans, ógni honum, hóti sjálfsmorði ef þolandinn fari frá honum eða geri ekki eins og hann segir og fleira. Persónuleg reynsla mín af þessum flokki felst meðal annars í því að rifrildin okkar, sem hófust oftast á því að ég gagnrýndi eitthvað sem hann gerði eða sagði, enduðu þannig að ég baðst afsökunar og huggaði hann. Mér leið eins og allt sem hann gerði væri mér að kenna því ég væri svo erfið og ósanngjörn við hann — en í raun var hann bara mjög góður í því að snúa út úr hlutunum sér í hag. Eftir á átti ég oft erfitt með að skilja hvað hefði gerst.

 

Félagslegt ofbeldi er sjaldnar rætt en tilfinningalegt og sálfræðilegt ofbeldi og gengur út á það að grafa undan samböndum þolandans við aðra. Þetta getur lýst sér þannig að gerandinn leyfi þolandanum ekki að hitta eða tala við vini og ættingja, fari í gegnum smáskilaboð, tölvupóst og símtöl þolanda án þess að hann gefi samþykki sitt, dreifi orðrómum um hann, hrindi þolanda út úr skápnum ef hann er LGBT+, niðurlægi eða gagnrýni hann fyrir framan aðra og fleira. Ein tegund félagslegs ofbeldis sem ég upplifði mjög sterkt var það að hann stjórnaði því hvernig sameiginlegir vinir okkar sáu sambandið með því að gefa það til kynna við öll tækifæri að ég væri brjáluð. Þetta gerði hann til dæmis með því að mæta ekki á fyrirfram skipulögð rómantísk kvöld með mér til að hitta vinahópinn okkar í staðinn og láta svo eins og þolinmóður kærasti klikkuðustu og mest þurfandi gellu í heimi þegar ég hringdi pirruð í hann. Mér leið líka oftast eins og við værum bara par þegar við vorum tvö ein saman því þegar við vorum í hóp var hann vanur að hunsa mig og daðraði jafnvel við aðrar stelpur fyrir framan mig. Ég sagði sjálfri mér að ég væri að ímynda mér hluti og að ég þyrfti að slaka á.

 

Nokkrum sinnum leiddi andlega ofbeldið til líkamlegs ofbeldis en í öll skiptin leið mér eins og það væri mér að kenna. Ég man eftir einu skipti þegar við vorum að rífast og hann… ég man ekki hvort hann sló mig, kýldi mig eða hvort það var spark. Það er langt síðan og það getur verið erfitt að skrifa um svona lagað. Sérstaklega þegar það var hluti af ofbeldinu að láta mig efast um eigin upplifanir og tilfinningar. En hann komst í uppnám og fór út, tuldrandi eitthvað um að þetta samband væri að skemma hann. Ég elti hann á sokkaleistunum, hágrátandi, og bað hann afsökunar á að ég skyldi hafa látið hann gera þetta. Eins og það hafi verið mér að kenna að hann beitti mig ofbeldi.

 

Allt þetta leiddi til mikils óöryggis í samskiptum mínum við fólk almennt, sem ég er enn að takast á við í dag. Mér finnst ég alltaf þurfa að útskýra hvað ég meini því mér líður eins og ég sé misskilin. Ég hef það á tilfinningunni að allir vinir mínir séu leiðir á mér og skilji mig viljandi útundan og samskipti mín við karlmenn einkennast af algjöru vantrausti mínu gagnvart því að þeir gætu mögulega laðast að mér. Ég er ekki eins góð í að eignast vini og ég var einu sinni því mér finnst ég alltaf fara í taugarnar á fólki. Stundum leiðir þetta óöryggi til þess að ég kem illa fram við fólk því ég misskil framkomu þess gagnvart mér. Allt eru þetta vandamál sem ég hef reynt að bæta úr en það er ekki auðvelt. Það varð samt sem áður auðveldara þegar ég áttaði mig á því hver uppsprettan var.

 

Ofbeldismenn leita oft í fórnarlömb sem eru þegar óörugg með eitthvað í sínu fari og notfæra sér það óöryggi. Þeir skilja oftast þolendur eftir mun skemmdari en þeir voru þegar sambandið hófst. Þolendur halda kyrru fyrir í ofbeldissamböndum af mörgum ástæðum, meðal annars vegna hræðslu við einmanaleika, sektarkenndar í garð gerandans og sannfæringu um að þeir geti ekki gert betur. Stundum halda þeir, eins og ég gerði, að þeir geti breytt gerandanum til hins betra. Þetta er alltaf misskilningur. Önnur ástæða fyrir því að margir halda ofbeldissamböndum til streitu er sú að gerandinn er aldrei alslæmur. Það var það sem þvældist hvað mest fyrir mér því hann var líka besti vinur minn. Það þekkti mig enginn betur og fallegu hlutirnir sem hann hafði gert fyrir mig voru alveg jafnsterkir í huga mér og ljótu hlutirnir. Það getur verið mjög ruglandi að eiga fallegar minningar um gerandann sinn. Ég man þegar hann sat hjá mér í margar klukkustundir og strauk mér um hárið meðan ég lá veik í fanginu á honum. En góðu stundirnar réttlæta ekki þær slæmu og sambandið var, þrátt fyrir þessar stundir, hvorki heilbrigt né gott. Það besta sem hann gerði nokkurn tímann fyrir mig var að hætta með mér og það tók mig marga mánuði að sætta mig við að það hafi verið fyrir bestu.

 

Andlegt ofbeldi á sér ekki bara stað í rómantískum samböndum. Gerendur geta líka verið fjölskylda eða vinir, jafnvel kennarar. Andlegt ofbeldi, eins og annað ofbeldi, er aldrei þolandanum að kenna heldur alltaf gerandanum. Ef þú kannast við eitthvað af þeim einkennum ofbeldis sem ég hef sagt frá ættir þú að kynna þér málið betur. Ef þú telur að þú sért að verða fyrir ofbeldi er ráðlegt að leita til sálfræðings eða annarrar aðstoðar. Kvennaathvarfið býður upp á símaráðgjöf allan sólarhringinn í síma 561-1205.