Daníel Arnarsson

Viðburðastjóri UVG

Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað árið 1949. Ísland var eitt af stofnríkjum þess. Það virðist oft haldast í hendur að styðja NATO og minna fólk á að við séum stofnfélagar. Eins og það skipti raunverulega einhverju máli. NATO er hernaðarbandalag, ekki varnarbandalag. Það er fáránlegur misskilningur og einfeldni að halda því fram.

 

Á tyllidögum

Eðli hernaðarbandalaga er að herir þjóða vinni saman að hernaði til sóknar eða varnar. En hvar er íslenski herinn? Blautir draumar Björns Bjarnasonar og annarra frjálshyggjumanna urðu sem betur fer ekki að veruleika og því er Ísland ennþá herlaust land. Á tyllidögum segjum við jafnvel að við séum friðsamt land, sem tali fyrir friði og gegn hernaði á alþjóðagrundvelli. En bara á tyllidögum.

 

Þversögn

Við erum jú aðili að NATO. Því getum við ekki talað fyrir friði. Það er ekki hægt. Það er þversögn að halda því fram að við getum kallast friðsöm þjóð en styðja síðan hvert einasta stríð sem NATO fer í. En fer NATO ekki örugglega bara í stríð við þá sem eru vondir eða ógna okkur á einhvern hátt? Það hlýtur eiginlega að vera þar sem Ísland, friðsama þjóðin, er aðili að þessu bandalagi.

 

Tilgangurinn

Fyrsti forseti NATO, Lord Ismay, sagði eftirminnilega: ,,NATO er tilkomið til að halda Rússunum úti, Bandaríkjamönnum inni og Þjóðverjum niðri“. Skýrt og skorinort. Við stofnun var mikið talað um varnir nýju NATO-þjóðanna. Ef ráðist væri gegn einni þjóð væri það túlkað sem árás á þær allar. Lítið sem ekkert var rætt um stríð sem NATO myndi há gegn öðrum þjóðum. Enn og aftur erum við stödd í þeim sýndarveruleika að Rússar séu upphafsmenn allra stríða og Þjóðverjar vondu kallarnir. Það hefur því í raun og veru lítið breyst í NATO síðustu hálfu öldina.

 

Árásarstríð

Stríð eru jafnan flokkuð í varnarstríð (e. defensive warfare) og árásarstríð (e. offensive warfare). Síðustu stríð NATO hafa verið flokkuð sem árásarstríð, þ.e. þau eru ekki háð innan landamæra NATO-þjóða né til þess fallin að verjast. Þvert á móti er tilgangur þeirra að ráðast inn í önnur lönd. En þetta er í raun eðli NATO því í eðli sínu er bandalagið hernaðarbandalag en ekki varnarbandalag.

 

Kannski

En erum við samt ekki öruggari innan NATO en utan þess? Munu Bandaríkjamenn ekki verja okkur fyrir árás? Ég hef oft spurt þessa spurninga þegar ég er að ræða við NATO-sinnaða vini mína. Svörin eru hins vegar óhugnanleg: ,,örugglega“ eða „kannski“. Þannig að við styðjum stríð NATO svo að við séum ,,kannski“ örugg? Er það virkilega nóg? Þessu hefur NATO heldur ekki getað svarað. Það var í lagi að önnur NATO-þjóð beitti okkur hryðjuverkalögum.

 

Sviss

Sviss er ekki aðili að NATO. Síðasta stríð sem Svisslendingar komu nálægt var Sonderbund-stríðið 1847 en það var borgarastríð milli ríkisins og sjö kaþólskra fylkja sem börðust gegn aukinni miðstýringu. 86 létust í stríðinu. Í síðari heimsstyrjöldinni tókst Sviss að halda hlutleysi sínu þrátt fyrir ítrekaðar ógnir. Vegna landfræðilegrar legu þá er ótrúlegt að Sviss hafi getað haldið hlutleysinu en nágrannaríki Sviss voru öll komin á vald möndulveldanna. Sviss hefur haldið hlutleysi sínu og ekki tekið þátt í stríðum NATO á síðustu áratugum.

 

Afganistan, Írak, Lýbía

NATO tekur þátt í gríðarlega mörgum stríðum og í öllum stríðum eru saklausir borgarar drepnir. Í Afganistan hefur NATO drepið yfir 20.000 manns. Í Írak hefur NATO drepið yfir 123.000 manns (en sumar heimildir telja þrefalt til fjórfalt fleiri). Í Lýbíu hefur NATO drepið að minnsta kosti 25.000 manns, þar af mörg börn. Ég hreinlega finn fyrir þessu öryggi alla leið til Íslands!

 

Hlutleysi

Ísland hefur ekki verið hlutlaust í alþjóðamálum og margir sjá það ekki sem valmöguleika. Það má ekki gleyma því að fjöldi þjóða eru hlutlaus: Sviss, Malta, Lichtenstein, Vatíkanið og Finnland til dæmis. Svíþjóð telur sig hlutlaust en hefur tekið þátt í stríðum upp á síðkastið vegna mikils þrýstings frá NATO, til dæmis. Sænska ríkisstjórnin hefur þó ákveðið val um sitt hlutleysi, þrátt fyrir að landið sé aðili að ESB.

 

Fordæmum öll stríð

Er þá raunverulegur möguleiki á hlutleysi Íslands? Já, það er möguleiki. En ég held að það sé ekki nóg. Ísland á að vera friðarþjóð, ekki bara á tyllidögum og þegar það hentar okkur, heldur alltaf. Við eigum að fordæma öll stríð því stríð eru aldrei góð. Það er ógeðslegt að tala fyrir stríði því það skapi hagvöxt eða efnahagslegan stöðugleika. Það er ógeðslegt að segja að stríð séu réttlætanleg því að þú heldur með þeim sem drepa. Það er ógeðslegt að segja að stríð sé nauðsynlegur hlutur í heiminum því þau hafa fylgt okkur frá örófi alda. Er ekki hægt að breyta?

 

Fyrir hverja?

Ef Ísland ákveður á morgun að ganga úr NATO og stofna friðarbandalag þá held ég að margar þjóðir muni líta upp til okkar og jafnvel taka þátt í friðarbandalaginu. Fyrir hverja er verið að berjast? Fyrir samfélögin? Fyrir stjórnmálastefnu? Eða hagsmuni örfárra? Við þurfum ekki að taka þá umræðu því það er morgunljóst hverjir ,,hagnast“ á stríði.

 

Draumur

Mig dreymir um frið. Mig dreymir um það að Ísland geti verið málsvari friðar. Það er ekki tæknilega flókið. En þangað til það gerist þá er ég allavega öruggur á meðan NATO, sem ég er aðili að, drepur leikskólakrakka í Mið-Austurlöndunum. Það barn mun þá allavega ekki drepa mig.