Eyrún Fríða Árnadóttir

Landstjórnarfulltrúi UVG

Við höfum kennt börnunum okkar að menntun sé af hinu góða. Við hvetjum þau til þess að stunda námið af kappi, halda áfram að mennta sig og njóta þeirra tækifæra sem þeim bjóðast. Við höfum kennt þeim að menntun nýtist ekki eingöngu einstaklingnum heldur samfélaginu í heild sinni og við hvetjum þau til þess að hjálpa öðrum og deila með sér. Ótrúlegt er því að hugsa til þess að, ef haldið verður áfram eftir þeirri braut sem við erum á nú, muni þetta allt heyra sögunni til.

 

Hverra hagur?

Erfitt er að sjá að ríkisstjórn Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins stefni að öðru en því að lækka menntunarstig þjóðarinnar. Hún stefnir í átt að samfélagi þar sem menntun er eingöngu æskileg, hafir þú efni á henni. Samfélagi þar sem eina menntunin, sem vert er að fá, er sú sem skapar sem mestan hagvöxt. Námið okkar er stytt til þess að auka ævitekjur og talað er um skólana okkar líkt og verksmiðjur. Verksmiðjur sem græða ekki á gæðum vörunnar heldur eingöngu á því hversu hratt þær geta losað sig við vöruna. Staðan er orðin sú að stúdentspróf úr menntaskólum landsins þykir ekki fullnægjandi til þess að komast inn í háskóla erlendis. Nemendur útskrifast hraðar en verr menntaðir. Hverra hagur er það?

 

Hinir útvöldu

Menntunin okkar tilheyrði eitt sinn fáum. Hún tilheyrði eitt sinn þeim útvöldu og þeim einum. En hún gerir það ekki lengur. Þökk sé þrotlausri baráttu allra sem komu á undan getum við sagt hvaða barni sem er að það hafi rétt á því að mennta sig. Höldum því þannig.

Ríkisstjórnin virðist líta á menntun sem leið hinna útvöldu til meiri gróða. Réttur þjóðarinnar til menntunar veltur á fjárhagsstöðu hennar og ríkisrekna menntakerfið, menntakerfið okkar, er hægt og rólega einkavætt. Stofnanir rata ein af annarri í einkarekstur. Hægt og rólega missir hópur nemenda möguleika sína innan kerfisins og áður en við vitum af verður rétturinn ekki lengur okkar.

Rétturinn sem við höfum barist fyrir í áraraðir, verður ekki lengur okkar.

 

Hvernig samfélag viljum við?

Ég vil geta hvatt börnin mín áfram. Sagt þeim að menntun sé af hinu góða og að þau eigi rétt á henni, óháð því hvað ég muni starfa við í framtíðinni. Ég vil að þau geti sótt sér þá menntun sem þau kjósa og verið öflugir þátttakendur í samfélaginu, hvort sem þau muni starfa við kennslu, hjúkrun eða smíði. Þau eiga rétt á því að þeirra tækifæri til að þroskast séu ekki skorin niður áður en þau hafa áttað sig á hæfileikum sínum eða löngunum.

Ég vil ekki ala börnin mín upp við þá hugmynd að hamingjan leynist í hagvexti. Ég vil ekki kenna þeim að nám sé einskis virði nema það skili ákveðinni launaupphæð. Ég vil ekki að börnin mín skuldsetji sig til þess eins að fá sér vinnu svo þau geti borgað upp námslánin sín.

Satt best að segja hef ég ekki áhuga á að tilheyra slíku samfélagi.

Menntun er góð. Við vitum það öll. Hvenær ætlum við að sýna það í verki?