Snæfríður Sól Thomasdóttir

Innrastarfsfulltrúi UVG

Menntun er mikilvægur og stór hluti af samfélaginu. Á mörgum stöðum, þar með talið Íslandi, er menntun í dag talin sjálfsögð réttindi. Það á að ríkja jafnrétti innan menntakerfisins og allir eiga að fá sömu tækifæri. Þetta er hins vegar nýlegt fyrirbæri því menntun hefur ekki alltaf verið talin sjálfsögð.

 

Valdamiklir, ríkir karlmenn

Lengi vel var menntun forréttindi og einungis lítill hluti einstaklinga hlaut menntun, venjulega ríkir karlmenn frá valdamiklum fjölskyldum. Auðvitað ríkir ennþá mikið ójafnrétti í tengslum við menntun í heiminum og á sumum stöðum er menntun langt frá því að vera talin sjálfsögð.

 

Dulið ójafnrétti

Á Íslandi ríkir dulið ójafnrétti í menntakerfinu og mikilvægt er að breyta því. Það er ekki tilviljun hverjir fá menntun og hverjir komast óhultir í gegnum menntakerfið með hæstu einkunn. Þetta fjallar ekki einungis um gáfur og vinnusemi heldur hvaða möguleika og tækifæri fólk hefur til að stunda nám og hvaða félagslega bakgrunn það hefur. Auk þess eru ekki allir sem passa inn í hið dæmigerða menntakerfi og flosna því úr skóla þó, þeir hafi áhuga á því að mennta sig, en þyrftu á annars konar menntakerfi að halda. Á sama tíma má hins vegar ekki gleyma því að sumir kjósa að fara ekki í framhaldsnám eftir grunnskóla og það þarf að virða það val.

 

Skilvindan og menntahrokinn

Þegar talað er um „bestu menntaskóla landsins“ koma oft nokkrir skólar upp í hugann. Það er ekki tilviljun að þessir skólar eru taldir bestu framhaldsskólarnir. Einungis þeir nemendur, sem útskrifast með hæstu einkunnirnar, komast inn í þessa skóla. Hæfustu kennararnir sækjast eftir því að fá að kenna þar og þeir nemendur, sem stunda þar nám, fá þar af leiðandi bestu kennsluna. Þó svo að grunnskólar séu svæðaskiptir og nám eigi að vera jafngott í þeim öllum er margt sem hefur áhrif á getu nemanda til að öðlast góðar einkunnir. Það hafa ekki allir sömu tækifæri, sama grunninn, sama félagslegan bakgrunn og sömu möguleika. Með því að láta einkunnir úr grunnskóla ráða því í hvaða framhaldsskóla nemendur fara er verið að greina þá í sundur. Skólakerfið er orðið eins og skilvinda sem skilur að „gáfaða“ nemendur frá öðrum. Í dag er menntakerfið orðið slíkt að til þess verða klár þarftu að vera klár fyrir. Þessu fylgir síðan mikill menntahroki, sem kemur sérstaklega niður á verklegu námi. Þó svo að allt nám eigi að heita jafnt er eins og fólk telji sumt nám jafnara en annað.

 

Fjármagnsþáttur

Fjármagn er ávallt til staðar og hefur getuna til að stjórna öllu, leynt og ljóst. Samfélagið í dag virðist ekki vilja að einstaklingar stundi hvaða háskólanám sem er heldur er það orðin spurning um það hvaða háskólanám muni reynast samfélaginu hagkvæmast. Háskólamenntun er kostnaðarsöm fyrir samfélagið og því einungis talin hagkvæm fyrir þá einstaklinga sem geta nýtt sér hana til að afla mikils fjár og styrkja um leið hagkerfi landsins. Efast er um gildi heimspekináms og annars hugvísindanáms en fólk er ítrekað hvatt til þess að fara í læknisfræði eða lögfræðinám. Þeir sem fara í nám sem vekur upp hugrenningartengsl við láglaunastörf þurfa oft að afsaka sig og verja sig fyrir spurningum um námsval sitt. „Af hverju ferðu ekki í nám sem þú munt græða á seinna?“ spyr fólk. „Af hverju leggur þú þetta allt á þig ef þú veist að þú ferð í láglaunavinnu að námi loknu?“ Þannig spurningar draga úr löngun fólks til að mennta sig til þess sem það langar og ýtir undir að það láti frekar peningana en hjartað ráða för í námsvali sínu. Þetta getur leitt til óhamingju í framtíðinni og fólk gefst þá kannski upp á vinnunni sinni. Hvort er þá vænlegast fyrir samfélagið: sáttir einstaklingar í störfum sem þeir hafa ánægju af eða fólk sem leiðist starfið sitt og endar mögulega á því að segja upp störfum? Peningar eiga ekki að ráða för þegar kemur að menntun. Þeir eiga hvorki að ráða því hverjir fái að mennta sig né hvaða menntun fólk velji.

 

Liður í jafnréttisbaráttunni

Baráttan fyrir menntun hefur verið löng og ströng og, þótt sorglegt sé að segja frá því, er henni engan veginn lokið. Enn er fólk sem fær ekki að mennta sig af ólíkum ástæðum. Enn ríkir ójafnrétti innan menntakerfisins. Talið er að menntun sé bráðnauðsynlegt verkfæri til að stuðla að jafnrétti í heiminum og því er nauðsynlegt að öllum standi til boða að mennta sig. Menntun á að vera mannréttindi en ekki forréttindi!