Stefán Elí Gunnarsson

Talsmaður UVG

Margir halda að hvert atkvæði skipti litlu máli í kosningum, sérstaklega í þing- og sveitarstjórnakosningum. Samt liggur það í augum uppi að kosningar eru nauðsynlegar til þess að þjóðin geti sagt sína skoðun á því hverjir fara með ríkisvaldið. Það er grunnhugmyndin með lýðræði.

 

Framtíðin okkar

Skortur á rannsóknum á samfélagsþátttöku Íslendinga eftir aldurshópum er mikill. Engu að síður eru til gögn héðan og þaðan sem benda til þess að ungt fólk sé langólíklegast allra aldurshópa til að mæta á kjörstað og segja sína meiningu. Þetta er verulega slæmt þar sem við unga fólkið komum til með að erfa landið. Við komum til með að stjórna og skipta með okkur gæðum samfélagsins. Við sköpum framtíðarstefnu og það er í okkar valdi að fara vel með það sem við höfum til þess að stuðla að betra og sjálfbærara samfélagi. Við viljum búa til veruleika þar sem hagur allra er hafður að leiðarljósi. Við viljum hins vegar ekki þurfa að byrja á byrjuninni þegar okkar tími kemur.

 

Fúnar stoðir

Aldagömul sjónarmið, sem eiga rætur sínar að rekja til íhaldssamra karla sem haldnir voru valdafíkn og forréttindablindu, eru því miður enn við líði í okkar vestræna samfélagi. Ég trúi því svo innilega að unga fólkið í dag sé meðvitaðra en eldri kynslóðir um þau samfélagslegu mein sem feðraveldið hefur í för með sér. Misskiptingu er viðhaldið með gölluðu hagkerfi. Nærtækasta dæmi þess er hræðsluáróður Samtaka atvinnulífsins um að hækkun lágmarkslauna hrindi af stað verðbólgu sem muni taka áratugi að kveða niður. Sömu hagsmunaaðilar leyfa sér að halda því fram að aukinn kaupmáttur þeirra, sem nú þegar hafa nóg, stuðli að auknum hagvexti. Svona aurapúkahjal er ógeðslega úr sér gengið og byggir rök sín á brauðmolakenningunni, sem er orðinn jafnskraufþurr og brauðmolar frá áttunda áratug síðustu aldar.

 

Þeir fá aldrei nóg

Sannleikurinn er sá að þeim, sem finnst nóg ekki nóg, fá aldrei nóg. Það eru einmitt þessir græðgispúkar sem reyna eftir fremsta megni að hafa sem mest áhrif á stjórnmálaflokka. Að minnsta kosti þá flokka sem kjósa að þjóna eigin hagsmunum frekar en þjóðarinnar. Þetta sást svo glögglega þegar bankarnir voru afhentir á silfurfati í góðærinu svokallaða. Var verknaðurinn kallaður einkavæðing. Eins er það einkar pínlegt hvernig núverandi stjórnarflokkar verjast ásökunum um spillingu á sama tíma og þeir hafa ekki undan að lækka veiðigjöld sjávarútvegsfyrirtækja og þjóna hagsmunum ríka fólksins — næstum eins og þeim sé borgað fyrir það.

 

Kröfur unga fólksins

Spilling af þessu tagi er einmitt ástæða þess að við unga fólkið verðum að hefja upp raust okkar. Við verðum að mæta á kjörstað til þess að láta stjórnmálafólk finna fyrir okkar kröfum. Okkar krafa er að við getum tekið við þjóðarbúinu í sæmlegu ástandi. Okkar krafa er að umhverfið sé virt og að langtímasjónarmið séu höfð til hliðsjónar þegar ákvarðanir sem varða náttúruna eru teknar. Okkar krafa er að stjórnmálafólk standi vörð um menntakerfið okkar, heilbrigðiskerfið, þau samgæði sem þjóðin hefur byggt gildi sín á – og vill byggja á áfram.

Þess vegna segi ég: Krakkar, mætið á kjörstað og kjósið eftir ykkar sannfæringu. Það er svo óskaplega mikilvægt. Okkar rödd skiptir máli því hún hefur áhrif til framtíðar!