Sara Mansour

Landstjórnarfulltrúi UVG

Ég er heppin að vera fjölþjóða og ég er heppin að hafa alist upp á Íslandi. Ef foreldrar manns eru hvort af sínu þjóðerni — eða þjóðernum — fær maður margfalda menningararfleifð í vöggugjöf auk þess sem maður elur með sér umburðarlyndi gagnvart ólíkum menningarheimum. Að fæðast og búa á Íslandi hefur líka veitt mér margt: öruggt umhverfi, ókeypis skólagöngu og heilbrigðisþjónustu, varðveittar náttúruperlur, umhverfisvæna orkugjafa, hreint vatn, réttindafræðslu (meðal annars um trúfrelsi), fordómalaust hugarfar, jöfn tækifæri og sanngjarnt réttarkerfi. Að sjálfsögðu var ég að telja upp áhersluatriði Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs. Raunverulega stendur Ísland einungis framarlega á þessum sviðum því önnur lönd standa aftarlega.

 

Ísland og Egyptaland

Ég er líka heppin að því leytinu til að ég hef fengið að ferðast víða og er veraldarvön miðað við aldur. Meðan ég rita þessi orð er ég stödd í Egyptalandi; arabalandi sem þó er þekkt fyrir fjölmenningu og túrisma. Ég hlaut þann heiður að kynnast hér ungri sveitastúlku. Við töluðum saman á ágætri ensku en aðallega fingramáli og með dramatísku látbragði því hvorug talar móðurmál hinnar. Skjávaramyndin á símanum mínum er háðmynd af hæstvirtum forsætisráðherra, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, og hún spyr feimnislega hvort hann sé kærastinn minn. Ég neita með hryllingi. (Ég á það til að sleppa úr svefni og uppsker fyrir vikið leiðinlega bauga. Ég get ekki hugsað til þess hvernig börnin okkar myndu líta út). Ég segi henni að þetta sé „the Prime Minister of Iceland“ og hún spyr hvort ég hafi áhuga á pólitík. Ég yppti öxlum og spurði hana þess sama. Fljótlega vorum við týndar í samræðum um stjórnmál og ég forvitnaðist um það hvað henni finnist um egypsku ríkisstjórnina. Mér til vandræðalegrar undrunar segist hún vera mjög ósátt við kynjahlutfallið, að allar valdastöður og embætti séu yfirtekin af körlum, konur hafi hér lítinn áhrifamátt. Ég tók undir með henni og svaraði spurningum hennar um íslensku ríkisstjórnina hreinskilnislega, að vissulega gegndu íslenskar konur stjórnunarstörfum en við værum hvergi nærri jafnrétti. Síðan gerðum við samning um að ég og hún — og aðrir femínistar — myndum sjá til þess að jafna stöðu kynjanna í pólitík, sem og á öðrum sviðum samfélagsins.

 

Hvern hefði grunað?

Fleiri stúlkur sögðu mér frá draumum sínum, um menntun, líkamsrækt, bílpróf og sjálfstætt líferni, sem myndu aldrei rætast meðan samfélagið álíti eina hlutverk kvenna vera húsmóðurhlutverkið. Þetta fékk mig til að hugsa um málefni sem tilviljanir hafa rekið framan í mig upp á síðkastið. Fyrir um það bil tveimur árum spruttu upp umræður um múslima á Íslandi á samfélagsmiðlum landsins. Til að byrja með fylgdist ég grannt með. Fólk var mismálefnalegt og margir virtust eiga erfitt með að aðgreina múslima frá hryðjuverkamönnum, sem er svo sem skiljanlegt í ljósi fjölmiðlaumfjöllunar. Fljótlega þreyttist ég samt á að lesa um hvernig hreinræktaðir Íslendingar ættu ekki að þurfa að þjást vegna ómögulegra aðstæðna fólks í arabalöndum. Ég hugsaði að svona væri þetta bara: vondir múslimar drottnuðu í fjölmiðlunum og heimskir Íslendingar tjáðu sig hæst á samfélagsmiðlum. Þeir myndu jafna sig fyrr eða síðar, rétt eins og fólk hætti að æsa sig yfir asískum og pólskum innflytjendum þegar það áttaði sig á þau voru bara… fólk? Hvern hefði grunað?

 

Vakandi martraðir og vítisgöngur

Þó ég hafi hætt að fylgjast með opinberu skítkasti á Facebook hélt ég áfram að afla mér upplýsinga um stöðu múslima annars staðar. Meirihluti múslima í heiminum eru harðlega andsnúnir bókstafstrúarmönnum sem skelfa, kúga, niðurlægja, nauðga og drepa saklaust fólk — yfirleitt múslima — í heimalöndum sínum. Ríkisstjórnir eru hjálparlausar gagnvart hryðjuverkaflokkum sem oft taka ríkisvaldið í eigin hendur. Líf almennings er vakandi martröð. Fræðimenn, kennarar, vísindamenn og annað réttsýnt fólk í háum stöðum gerir sitt besta til að vernda þjóð sína með menntun að vopni en tilraunir þeirra eru sprengdar í loft upp… bókstaflega. Hryðjuverkamenn ráðast á menntastofnanir, samgönguleiðir, spítala og hjúkrunarheimili, íþróttaleikvanga, miðstöðvar hjálparstarfsmanna, heimili, barnaskóla — skömmin er engin. Sum flýja og kallast þá flóttafólk. Sum þeirra leita til Íslands. Þau ganga í gegnum helvíti í þeirri veiku von að hljóta landvistarleyfi og lifa þannig að þau þurfi ekki að óttast um líf sitt hvert einasta andartak. Auðvitað getur enginn lifað „venjulegu lífi“ eftir slíka reynslu en margir halda í vonina um betri framtíð fyrir börnin sín.

 

Upp á líf og dauða

Ef þau eru síðan svo lánsöm að vera ekki send til baka eða til annarra landa þar sem ófriður ríkir, þá kemur stór hluti Íslendinga fram við þau eins og fávísar ófreskjur. Flestir múslimar á Íslandi eru hér vegna þess að hér býr fjölskylda þeirra, hér eru atvinnumöguleikar eða einfaldlega því þau hafa áhuga á landinu. Íslendingar flytja líka úr landi, skoða heiminn og finna sér sinn stað í veröldinni. Til dæmis fara margir til Norðurlandanna (sérstaklega læknar, *hóst* léleg laun hérlendis *hóst*). Múslimar á Íslandi eru ekkert frábrugðnir… fyrir utan það að hjá mörgum þeirra er þetta upp á líf og dauða. Kannski ættum við að einbeita okkur að því að bjarga þeim milljónum múslima sem búa við ólýsanlegan hrylling frekar en að miða líf okkar út frá þeim tvöhundruð sem létu lífið í árásinni á Tvíburaturnana (sem er auðvitað einnig harmleikur þrátt fyrir að vera á smærri skala). Markmið okkar ætti að vera að tryggja tækifæri allra til lífs og þroska og krefjast þess að mannréttindi séu virt, frekar en að hafa áhyggjur af því hvort lítill hópur friðsæls fólks fái styrk til að byggja sér samkomuhús á Íslandi.