Rakel G. Brandt

Aðalritari UVG

Samfélög samanstanda af einstaklingum sem mynda eina heild en skipta sér jafnframt upp í hópa. Í þeirri heild má svo finna alls konar meðaltöl sem á móti endurspeglast í vissum staðalímyndum. Staðalímyndirnar notum við svo flest til þess að miða sjálf okkur við þá hópa sem við tilheyrum. Þeim einstaklingum, sem samsvara ekki tilteknum hóp, er oft ýtt til hliðar til að „vernda“ ímynd hópsins. Hræddir við höfnun ýmist draga þessir einstaklingar sig oft sjálfviljugir úr hópnum eða láta ekki í sér heyra. Oft er þetta fólk sem styrkir hópinn, eykur fjölbreytileika hans og hefur önnur sjónarmið, sem að aðrir taka ekki eftir. Svo eru til aðrir sem eru of uppteknir við að falla inn í hópinn til þess að dæma gildi hans og reglur á gagnrýninn hátt.

 

Óhóf?

Í íslensku samfélagi eru vissir hópar fólks sem að vekja mun sterkari viðbrögð en aðrir. Geta viðbrögðin til dæmis tekið á sig myndir útskúfunar, óviðeigandi persónulegra spurninga eða hróss fyrir eitthvað sem þykir sjálfsagt hjá öðrum. Einn af þessum hópum fær á sig mjög þverstæðukennt viðurnefni. Það er öfgafulla „hugsjónafólkið“. Aktívistarnir. Fólkið sem berst gegn félagslegum kerfum sem mismuna fólki og öðrum lífverum bæði í orði og á borði. Flest könnumst við við hugtökin „öfgafemínistar“, „öfgaumhverfisverndarsinnar“, jafnvel „öfgagrænmetisætur“ og svo framvegis. Öfgar eru þannig skilgreindir af samfélaginu sem „það mesta sem til greina kemur“; óhóf; eitthvað sem þekkir ekki eða neitar að gangast við viðmiðum samfélagsins um það hvað sé skynsamlegt. En hvernig er jafnrétti kynjanna ekki skynsamlegt? Hvað er umhverfið annað en samansafn tæmanlegra auðlinda sem er skynsamt að standa vörð um? Er það virkilega óskynsamlegt að vilja ekki valda öðrum lífverum skaða?

 

Öfgameðvirkni

Mig langar að umturna notkuninni á hugtakinu öfgum. Hér kemur uppástunga að nýjum hópi öfgamanna. Þessi hópur fólk er fjölmennur og geta flestir eflaust tengt við hann á einn eða annan hátt. Öfgameðvirkt fólk. Meðvirkni er skilgreind sem hegðunarmynstur eða samskiptaform milli fólks með fíknisjúkdóm eða geðröskun og aðstandenda þar sem aðstandendur standa með hinum veika á rangri braut vegna misráðinnar góðsemi eða ótta. Meðvirkni getur farið út í mikla öfga. Þá erum við ekki að ræða afstöðu hins meðvirka með einum veikum einstaklingi heldur heilu kerfi sem er sjúkt. Kerfið verndar sjálft sig með því að útskúfa þeim sem eru öðruvísi og viðhalda þannig eigin staðalímyndum. Þetta ástand hefur ríkt svo lengi að samfélagið eins og það leggur sig lætur endurtekið vaða yfir sig og aðra án þess að hreyfa andmælum. Margir eru ósáttir en þeir sem voga sér að tjá óánægju sína fá oft á sig þann stimpil að vera með öfgafullar skoðanir og falla ekki inn í hina tilbúnu staðalímynd. Þannig taka hinir öfgameðvirku afstöðu með kerfinu og styðja við óréttlæti þess.

 

Einsleitni er ekki styrkur

Þessi hræðsla við að vera öðruvísi er óheilbrigð og stuðlar að aukinni vanlíðan sem versnar bara með tímanum. Við erum í eðli okkar rosalega fjölbreytt og það er styrkleiki. Ef að eitthvað brennur á þér átt þú að vera frjáls til þess að tjá þig um það og hegða þér í samræmi við eigin sannfæringu. Það er fátt fagurra en fólk sem fórnar eigin þægindum annarra vegna. Standið með sjálfum ykkur og látið ekki staðalímyndir byggðum á tölfræðilegum meðaltölum hafa stjórn yfir ykkur. Hún er óraunveruleg mynd sem enginn uppfyllir. Öll erum við frávillingar sem ættum að móta okkar eigin formgerðir. Styðjum næsta mann, sem er alveg jafneinstakur og við sjálf, því saman myndum við eina sterka heild!