Ívar Vincent Smárason

Landstjórnarfulltrúi UVG

Í marsmánuði síðastliðnum gerðist atburður sem vart fór framhjá neinum, síst þeim sem fylgst hafa með störfum núverandi ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, ákvað upp á sitt einsdæmi að slíta aðildaviðræðum við Evrópusambandið án þess að málið fengi þinglega meðferð og án þess að þjóðin fengi sitt að segja um málið. Viðbrögðin við fréttinni létu ekki á sér standa: samfélagsmiðlar loguðu, mótmælt var á Austurvelli og utanríkisráðherra var í kjölfarið fordæmdur fyrir framkomu sína. Urðu skrif Gunnars Braga til Evrópusambandsins einnig til þess að stjórnarandstaðan sá sig tilneydda til þess að skrifa annað bréf þar sem áréttað var að utanríkisráðherra væri ekki að tala í umboði þings né þjóðar.

 

En kannski hefði framkoma Gunnars Braga í þessu máli ekki átt að koma neinum á óvart í ljósi fyrri starfa núverandi ríkisstjórnar. Skemmst er að minnast þess þegar ríkisstjórnin setti aðildarviðræður á ís fyrir ári síðan án þess að koma með neina lausn um framhald málsins. Þá, líkt og nú, var uppi hávær krafa um að þjóðaratkvæðagreiðsla ætti sér stað um áframhald málsins. Þannig hefði þjóðin fyrir fullt og allt getað útkljáð þetta erfiða mál með fullnægjandi hætti. Það er enda ekki nema von að fólk hafi mótmælt ákvörðun ríkisstjórnarinnar í fyrra. Samstarfssáttmáli hennar kvað með skýrum hætti á um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi viðræður við Evrópusambandið.

 

Núverandi skoðanakannanir hafa sýnt svo ekki fari á milli mála að þjóðin vilji fá að eiga aðild að þessu stóra máli sem hefur verið eitt mesta þrætuepli íslenskra stjórnmála frá árinu 2009. Hægristjórnin virðist hins vegar ekki sjá sóma sinn í því að hlusta á raddir almennings og virðist oft gleyma því að hún sækir umboð sitt bæði til þings og þjóðar. Vilji þjóðarinnar hefur ekki einungis verið hunsaður í þessu máli heldur hefur vilji þingsins einnig verið virtur að vettugi. Ákvörðun Gunnars Braga var tekin algjörlega einhliða og því hlýtur maður að staldra við og spyrja sig að því hvers vegna ekki var einu sinni leitast við að afgreiða málið með þingsályktunartillögu. Svarið felst að öllum líkindum í þeirri staðreynd að meirihluti fyrir slíkri ályktun hefði ekki fengist á Alþingi. Stjórnarsamstarfið var enda byggt á þeirri lýðræðislegu kröfu að þjóðin fengi að eiga síðasta orðið í þessu máli og eru enn stjórnarliðar á þingi sem vilja efna það loforð.

 

Það alvarlegasta í þessu öllu saman er að ráðherra í ríkisstjórn Íslands hafi náð fram vilja sínum án þess að fara eftir þeim lýðræðislegu leiðum sem standa honum til boða. Það er ekki einungis móðgun við Alþingi. Það er einnig móðgun við þjóðina. Framkoma Gunnars Braga má ekki alls ekki verða öðrum til eftirbreytni.

 

Krafan um að kallað verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um stöðu aðildarviðræðnanna er ekki krafa um inngöngu í Evrópusambandið. Sú krafa er byggð á því að almenningur fái sitt að segja um þau veigamiklu mál og þær stóru ákvarðanatökur sem varða þjóðina. Það er krafa þjóðfélagsins að rödd fólksins fái að heyrast í meira mæli en því miður virðast slíkar kröfur falla fyrir daufum eyrum hægristjórnarinnar sem hefur nú þegar fengið falleinkunn hjá almenningi. Farsælast væri fyrir hana að muna að hún sækir umboð sitt til þjóðarinnar og starfsemi hennar þarf að fara eftir þeim reglum sem þingræðið setur henni. Almenningi í landinu stendur ekki einungis ógn af einræðistilburðum hægristjórnarinnar með Gunnar Braga fremstan í flokki heldur stendur lýðræðinu einnig ógn af störfum hennar.