Gísli Garðarsson

Ritstjóri UVG

Kæru félagar,

Gleðilegt Íllgresi – og til hamingju með alþjóðlegan baráttudag verkalýðsins!

Fyrsti maí er dagur sem er alþýðufólki um allan heim hjartfólginn. Dagsetningin var valin af öðru alþjóðasambandi sósíalista sem alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins til að minnast Haymarket-átakanna í Chicago 1886 en þar kom til blóðugs bardaga milli verkamanna, sem kröfðust átta klukkustunda vinnudags, og lögreglu. Í á aðra öld hefur alþýðufólk víða um veröld fylkt liði á fyrsta maí og krafist bættra kjara til handa lægri stéttum, félagslegs réttlætis og jöfnuðar.

Hvað svo sem borgaraleg öfl í síðkapítalísku samfélaginu vilja telja okkur trú um er stéttabaráttan alls ekki barn síns liðna tíma. Þvert á móti. Ójöfnuður fer sífellt vaxandi á heimsvísu og auðmagnið safnast saman á færri og færri hendur. Laun yfirmanna fjármála- og stjórnunardeilda hækkuðu um 11.5% á síðasta ári upp í rúma 1.1 milljón á mánuði að meðaltali. Undanfarin ár hafa toppar í íslenskum fyrirtækjum raunar almennt notið góðs af verulegu launaskriði á sama tíma og Samtök atvinnulífsins voga sér að leggjast gegn sanngjarnri kröfu Starfsgreinasambandsins um 300.000 króna lágmarkslaun – og bera það fyrir sig að það verði að viðhalda stöðugleika. Á sama tíma og rúmlega 10% Íslendinga á vinnumarkaði eru með þrefalda til tífalda þá upphæð, sem beðið er um, í mánaðarlaun er það verkefni alþýðufólks og hinna lægst launuðu að halda aftur af verðbólgu, að mati atvinnurekenda.

Það er ekki aðeins augljóst að ríkisstjórn hinna efnuðu stétta er fullkomnlega getulaus til að takast á við launamisrétti og beinar afleiðingar þess – yfirstandandi átök á vinnumarkaði – heldur væri slíkt hreinlega andstætt hugmyndafræði hægriflokkanna. Þvert á móti lýsti forsætisráðherra því yfir í viðtali í byrjun síðasta mánaðar að ríkisstjórnin myndi ekki aðhafast þrátt fyrir yfirvofandi víðtækar verkfallsaðgerðir. Allar aðgerðir hennar í efnahagsmálum, s.s. lækkun á millitekjuskattsþrepi en hækkun á vsk. af matvörum og bókum, aflagning auðlegðarskattsins, lægri álögur á útgerðina, gjaldskrárhækkanir, víðtækur niðurskurður hjá hinu opinbera, skuldaniðurfellingin, yfirlýsingar um svokallaða einföldun skattkerfisins o.s.frv., eru beinlínis í þágu milli- og efri stéttar en koma niður á alþýðufólki.

Við þetta verður ekki lengur unað. Fátækt útskýrist ekki af því að auðævin séu ekki til. Það er nóg til. Því er einfaldlega misskipt. Réttlátt samfélag getur ekki grundvallast á áframhaldandi stéttskiptingu og misrétti. Félagslegu réttlæti verður aðeins náð í stéttlausu samfélagi þar sem við njótum öll góðs af hagsældinni. Sýnum samstöðu um réttlátar kröfur verkalýðshreyfingarinnar í dag og um alla framtíð.