Bjarki Þór Grönfeldt

Landstjórnarfulltrúi UVG

Óhætt er að fullyrða að Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra sé ekki ákvarðanafælinn maður. Nánast einn síns liðs hefur hann ráðist í ýmsar grundvallarbreytingar á skólakerfinu. Án fyrirvara og nokkurrar umræðu bárust þær fréttir eins og þruma úr heiðskíru lofti að Illugi hygðist loka framhaldsskólum landsins fyrir einstaklingum 25 ára og eldri. Augljóst er að koma átti málinu þegjandi og hljóðalaust í gegnum þingið því aðgerðin var kynnt í september og átti að taka gildi um áramót, á tíma og Alþingi er á kafi í fjárlagavinnu. Þá voru hvorki samtök fagfólks í skólakerfinu kölluð til samráðs um málið né Samband íslenskra framhaldsskólanema.

 

Pólitískt sóló

Ákvörðunin var pólitískt sóló ráðherrans og varla heyrðist nokkur maður mæla því bót annar en ráðherrann sjálfur. Málið mætti mikilli andstöðu í þjóðfélaginu enda hefur það færst í vöxt á undanförnum árum að fólk sem hefur verið á vinnumarkaðnum lengi fari aftur í nám. Áhrifanna gætir ekki síst á landsbyggðinni þar sem opnaðir hafa verið framhaldsskólar á stöðum þar sem íbúar þurftu áður að flytja burt til að afla sér menntunar. Aðgengi að framhaldsskólum er því ekki aðeins menntamál heldur einnig byggðamál. Ekki heyrðist ein stuna frá þingmönnum meirihlutans vegna málsins og stjórnarliðar veittu málinu því þögult samþykki sitt.

 

Námsframboð skerðist

Helsti styrkur íslensks menntakerfis er sveigjanleiki þess. Einstaklingar sem hættu í framhaldsskóla á unga aldri hafa átt þess kost að koma inn aftur og fjölmörg dæmi eru um slíka einstaklinga sem hafa svo farið í langskólanám og auðgað samfélagið með ómetanlegum hætti. Fækkun nemenda mun einnig valda því að í mörgum framhaldsskólum muni námsframboð skerðast verulega, sérstaklega með tilliti til valáfanga sem bjóða upp á fjölbreytni í námsvali og gefa nemendum tækifæri til þess að sérhæfa sig á ákveðnum sviðum.

 

Taktleysi og tvískinnungur

Menntamálaráðherra hefur verið tíðrætt um hærra menntunarstig, aukið læsi, minna brottfall og svo framvegis. Taktleysi og tvískinnungur ráðherrans er hins vegar slíkur að hans lausn á vandanum er að vísa rúmlega þúsund manns úr skóla. Hvernig er hægt að auka menntunarstig með því að fækka nemendum? Ekki munu allir snúa aftur til náms í kostnaðarsöm úrræði eins og frumgreinadeildir eða háskólabrýr. Í kjölfar þessara breytinga verður framhaldsskólakerfið einsleitara og veikara en umfram allt munu þær hafa skaðleg áhrif á menntunarstig þjóðarinnar. Það er því vonandi að skaðinn verði ekki orðinn óafturkræfur árið 2017 þegar ný ríkisstjórn tekur (vonandi) við.