Daníel Arnarsson

Viðburðastjóri UVG

Það eru margir hlutir sem einkenna góða pólitíkusa og flest viljum við, sem vinnum í pólitík, gera gott. Við viljum vinna fyrir samfélagið og leggja okkar af mörkum svo að fólk hafi tækifæri til að gera það sem það vill. En það eru líka fjölmargir hlutir sem einkenna vonda pólitíkusa. Hér að neðan eru átta atriði sem einkenna þá vondu og fyrir neðan hvert atriði má finna tilvitnun í þingmenn og pólitíkusa. Stundum er raunveruleikinn betri en nokkur skáldskapur en í þessu tilfelli er hann reyndar verri. Tilvitnanir hér að neðan eru bæði frá ráðherrum, þingmönnum og ungliðahreyfingum ríkisstjórnarflokkana.

 

1. Lygar. Það er skýrt merki um lélegan leiðtoga þegar við erum hætt að treysta nokkru sem hann segir. Ekki aðeins vegna þess að hann bullar mikið, heldur hefur hann sagt okkur svo margar lygar að við vitum ekki hvað er satt og hvað er logið.

 

2. Er stórtækur þegar það hentar. Við höfum öll heyrt það fyrir kosningar að leiðtoginn ætli sér stóra hluti. Hann ætlar að bjarga efnahagnum eða taka kerfið í gegn. Þegar hann er svo kosinn þá eru loforðin oftar en ekki linsoðin og hálfvolg vella.

 

3. Kennir öðrum um. Það er aldrei neitt honum að kenna heldur eru vandamálin tilkomin vegna alþjóðlegra vandamála eða fyrri ríkisstjórna. Hann er í raun að laga vandamálin en almenningur bara sér það ekki.

 

4. Óskýrleiki. Hann segir eitt en gerir annað. Hann klárar aldrei setningu og setur alltaf fyrirvara við það sem hann ætlar að segja. Einnig er hann gjarn á að segja setningar sem geta þýtt eitt en þýða í rauninni annað.

 

5. Valdasýki og rembingur. Völd eru lúmsk. Þau eru freistandi. Alltaf fellur okkar leiðtogi í þá gildru að nærast á völdum og nýtir sér jafnan þjóðrembing til að koma sínum skilaboðum á framfæri.

 

6. Aldrei tilbúinn til að fórna sér. Hann mun aldrei viðurkenna að hann hafi gert mistök. Aldrei. Hann telur að gjörðir sínar séu ofar samfélaginu í heild og því sé hann ófær um að gera mistök.

 

7. Stjórnar með tilvísan til vinsælda. Að fá meirihluta í kosningum á fjögurra ára fresti er ekki nóg til að gera nákvæmlega það sem hann vill. En því miður trúir hann því. Því stjórnar hann alltaf eins og hann hafi alla á bak við sig þegar hann hefur, í raun og veru, fáa á bakvið sig.

 

8. Fórnar tækifærum framtíðar fyrir hagkvæmni nútíðar. Það er viðbjóðslegt að sjá stjórnmálamenn ákveða eitthvað aðeins út frá þörfum okkar í dag en hugsa ekkert um það sem síðar verður. Skýr dæmi um þetta eru umhverfismál og efnahagsmál.

 

Það er ekki hughreystandi að hugsa til þess að ummælin hefðu getað verið mun fleiri, svo ,,vönduð“ er ríkisstjórnin okkar. Höfum þessi atriði í huga þegar við vinnum í pólitík, fylgjumst með pólitík og veljum þá aðila sem eiga að tala okkar máli í pólitík. Það þýðir ekki endalaust að gagnrýna kerfið þegar fólkið sem stjórnar kerfinu er gallað.