Jovana Pavlović

Landstjórnarfulltrúi UVG

Norður-Atlantshafsbandalagið (NATO) var stofnað árið 1949 af 12 ríkjum í Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu. Atlantshafsbandlagið skilgeinir sig sem varnarbandalag er byggist á stjórnmála- og hernaðarlegri samvinnu milli aðildarríkjanna. Í upphafi var tilgangur NATO að bandalagið stuðlaði að enduruppbyggingu Evrópu eftir síðari heimsstyrjöld og að tryggja öryggi aðildarríkjanna gegn Sovétríkjunum. Bandalagið var stofnað með tilliti til 51. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, þar sem stendur að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafi rétt til sjálfsvarnar, meðal annars með því að mynda bandalög fyrir sameiginlega vörn. Þar kveður:

„Engin ákvæði þessa sáttmála skulu takmarka hinn órjúfanlega rétt ríkis til sjálfsvarnar, eins sér eða með öðrum ríkjum, ef ráðist er með hervaldi á meðlim hinna Sameinuðu þjóða, þangað til Öryggisráðið hefur gert þær ráðstafanir sem nauðsynlegar eru til varðveislu heimsfriðar og öryggis.“

Stofnsáttmáli NATO var undirritaður þann 4. apríl 1949 og hann kveður meðal annars á um að bandalagið stuðli að því að „varðveita frelsi þjóða sinna, sameiginlega arfleið þeirra og menningu, er hvíla á meginreglum lýðræðis, einstaklingsfrelsis og lögum og rétti“. Meðal annars kemur fram í 5. gr. sáttmálans: ,,Aðilar eru sammála um, að vopnuð árás á einn þeirra eða fleiri í Evrópu eða Norður-Ameríku skuli talin árás á þá alla“.

Í kjölfar þess var Varsjábandlagið, hernaðarbandalag Sovétríkjanna, stofnað 14. maí 1955. Bandlagið var hugsað sem svar við Atlantshafsbandalagi Vesturveldanna.

 

Breytingar á grunnstefnu NATO

Það var ekki fyrr en seinna Persaflóastríðið hófst 1990, við innrás hersveita Íraks í Kúveit, að Bandaríkjastjórn sendi beiðni til Atlantshafsbandalagsins um að taka þátt. Þeirri beiðni var hafnað þar sem bandalagið hafði hvorki lögmæta ástæðu né umboð til að taka þátt. Það leiddi til þess að ný grunnstefna Atlantshafsbandalagsins var samþykkt á leiðtogafundi í Róm árið 1990, sem heimilaði slíkar aðgerðir.

Orðalag grunnstefnu bandalagsins er hins vegar frekar umdeilt. Talið er að það bendi til þess að á þessum tíma hafi vilji bandalagsins verið að efla sameiginlegar varnir gegn árásum á landsvæði aðildarríkjanna en ekki að efna til íhlutunar utan þess svæðis. Í 35. gr. grunnstefnunnar, sem fjallar um tilgang bandalagsins, kemur meðal annars fram að bandalagið sé varnarlegs eðlis og vopnum verði einungis beitt í sjálfsvörn. Hersveitirnar séu til staðar til að tryggja aðildarríkjum yfirráð yfir sínum landsvæðum og sjálfstæði. Þannig muni bandalagið stuðla að friði og stöðugleika í Evrópu. Endalok Kalda stríðsins árið 1991 mörkuðu upphaf mikilla breytinga á alþjóðavettvangi. Hrun Sovétríkjanna þýddi í raun að alþjóðakerfið breyttist úr tvípóla kerfi, þar sem tvö ríki keppast um völd, í einpóla kerfi, þar sem eitt stórveldi hefur yfirráð.

 

Júgóslavía

Júgóslavía var land í Suður-Evrópu næstum því alla 20. öldina. Draumurinn um ríki ,,suður-slava” hafði verið sterk hugmyndafræði síðan á 17. öld. Hún varð loksins að raunveruleika strax eftir fyrri heimsstyrjöld 1918, þegar Konungdæmi Serba, Króata og Slóvena var myndað og fékk síðar nafnið Júgóslavía. Hugmyndafræðin bak við stofnun ríkisins var að ,,suður-slavar“ hættu að vera veikburða þjóð sem félli alltaf fyrir hernámi stærri heimsvelda. Eftir að síðari heimsstyjröld lauk 1945 var Josip Broz Tito kjörinn leiðtogi hinnar nýju Júgóslavíu. Í hinu nýja ríki bjuggu Serbar, Króatar, Bosníu-múslimar, Makedónar og Albanir ásamt öðrum þjóðum. Júgóslavía samanstóð af sex lýðveldum: Serbíu, Króatíu, Bosníu–Hersegóvínu, Slóveníu, Makedóníu og Svartfjallalandi, þar sem um var að ræða sósíalískt stjórnarfar. Júgóslavía var mjög sérstök. Landið hafði myndað sína ,,eigin útgáfu af sósíalísku hagkerfi.“ Sagan af Júgóslavíu var sagan af því hvernig áætlunarbúskapur gat gengið og skilað sér í betri lífskjörum. Landið bjó við meiri hagvöxt en flest lönd Vestur-Evrópu. Þetta var fjölþjóðlegt samfélag sem bjó í sátt og samlyndi.

Árið 1991 tók Júgóslavía að liðast í sundur. Lýðveldin kröfðust sjálfstæðis frá sambandinu. Mikil þjóðernishyggja myndaðist í kjölfarið og átök um landamæri hófust. Alþjóðasamfélagið lýsti yfir áhyggjum af ástandinu og harmaði mannfallið sem hafði átt sér stað. Lítið benti þó til þess að Atlantshafsbandalagið myndi hafa afskipti af málinu.

 

Kósóvó

Kósóvó hafði verið undir Tyrkjaveldi í rúm 500 ár, eða síðan á 14. öld. Þar höfðu Serbar og aðrir minnihlutahópar búið við mikla ógn og margir fluttust burt. Eftir sigur á Tyrkjum varð Kósóvó aftur hluti af Serbíu árið 1912 og átti landamæri að Svartfjallalandi og Albaníu. Í gegnum aldirnar hafði stór hluti albönsku þjóðarinnar flust til Kósóvó, meðal annars á tímum Tyrkjaveldis. Á tímum hinnar sósíalísku Júgóslavíu fluttist einnig stór hluti Albana til Kósóvó í leit að betra lífi. Þeir bjuggu við mun betri lífskjör í Júgóslavíu (Kósóvó) en í Albaníu. Þeir fengu sína eigin skóla, eigið ríkissjónvarp, dagblöð, stjórnarskrá, frelsi til að iðka sína menningu og svo framvegis. Allt fengu þeir þetta á sínu móðurmáli.

Með tímanum byrjuðu Albanir að krefjast þess að Kósóvó fengi einnig viðurkenningu sem lýðveldi. Í því samhengi má nefna mikil mótmæli Albana 1968. Rétt áður en síðari heimsstyrjöldinni lauk árið 1943 var Kósóvó hernumið af Albaníu, sem á þeim tíma var undirsett Þýskalandi nasismans. Mustafa Kruja, forsætisráðherra Albaníu, var í Kósóvó 1943 og lýsti því yfir að Albanir skyldu vinna að því að fjarlægja Serba frá Kósóvó eins fljótt og auðið væri. Serbar í Kósóvó skyldu flokkast sem nýlenduherrar og sem slíkir vera sendir í útrýmingarbúðir í Albaníu.

Það var ekki síðan fyrr en 1998 sem spennan í Kósóvó magnaðist svo að upp úr sauð. Atlantshafsbandalagið gaf út stuðningsyfirlýsingu við Frelsisher Kósóvó. Frelsisher Kósóvó lýsti því yfir að markmið þeirra væri að öðlast sjálfstæði frá Serbíu, þar sem að herinn átti í átökum við öryggissveitir Serba.Það er áhugaverð staðreynd í þessu samhengi að áður, árið 1988, hafði utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna lýst því yfir að Frelsisher Kósóvó væri hryðjuverkasamtök, fjármögnuð með heróínsölu og með tengsl við Osama Bin Laden.

Réttlætingar Atlantshafsbandalagsins á íhlutun þess í fyrrum Júgóslavíu eru mikið deilumál enn þann dag í dag. Það er vegna þess að áróður fjölmiðla átti mikinn þátt í því hvaða sjónarhorn almenningur Vesturlanda fékk sá. „A lot of the so called liberal or left wing or progressive media were themselves co-opted by the mainstream viewpoint regarding the Balkans,“ sagði Lituchy. Einnig höfðu margar nýjar heimildir á tímum Kósóvódeilunar verið hunsaðar í kjölfar íhlutunar og margar af þeim heimildum hafa átt erfitt uppdráttar.

 

Árásin

Hvað sem öðru líður hóf NATO árás á Serbíu og Svartfjallaland þann 24. mars 1999.

Loftárásirnar stóðu í 78 daga. Skólar, spítalar, matvöruverslanir, brýr og jafnvel erlend sendiráð voru öll lögmæt skotmörk NATO. Nánast á hverju einasta kvöldi sprengdu þeir raforkuver, sem leiddi til þess að það var mjörg erfitt að komast að vatni. Nokkrar milljónir manna höfðu ekki aðgengi að mat og vatni. Það skiptir hreinlega ekki máli frá hvaða hlið fólk vill líta á Kósóvó-deiluna. Einnig urðu mörg stórfyrirtæki fyrir árásum, svo sem verksmiðjur og annar samfélagslega mikilvægur rekstur. Þessi sömu fyrirtæki voru svo mörg hver eftir stríðið keypt af vestrænum samkeppnisaðilum sínum. Það er greinilegt að loftárásum Vesturvelda í Kosovo var einnig beint að hagkvæmustu verksmiðjunum og fyrirtækjunum (steinsteypusmiðjum, olíuiðnaði, bifreiðaiðnaði, fjarskiptakerfum) og lögðu því mikilvægar samfélagsstoðir algjörlega í rúst ásamt hinu gífurlega mannfalli. Hvernig hafði það áhrif á það sem átti sér stað í Kósóvó?

„Þegar borgarar dóu voru þeir kallaðir „collateral damage“ og það er akkúrat það sem lætur þér líða illa. Af því að þetta er fólk. Þau eiga sín nöfn og þau eru allt fyrir fjölskyldum sínum. En fyrir afganginn af heiminum þá eru þau „collateral damage“.“

 

Vitnisburðir um loftárásina

„12. apríl 1999: Það var brú rétt hjá borginni Nis, sem var sprengd þegar lest með fullt af fólki var að fara yfir brúna,” er haft eftir Milincic.

„Við fundum fyrir sprengingunni og sáum loga undir eimreiðinni. Lestin hafði splundrast af miklum krafti, hálfum metra frá jörðinni. Ég veit ekki hvernig við náðum að standa á járnbrautarteininum,“ er haft eftir öðru vitni, Boba Kostic.

„Einn af kunningjum okkar náði að komast lifandi af úr lestinni. Hann var virkilega hræddur en önnur eldflaug hitti hann og sprengdi hann í tætlur,“ segir enn annað vitni, Goran Mikic.

„Af hverju? Af hverju almennir borgarar?“ er haft eftir fjórða vitninu Dragan Ciric. „Það kvelur mig ennþá. Ef fyrsta eldflaugin var mistök, hvað voru þá hinar síðari þrjár fyrir?”

 

Afleiðingar loftárásarinnar

Notkun NATO á sneyddu úrani í loftárásum sínum hefur valdið aukinni tíðni krabbameins og fæðingargalla á landsvæðum innan Serbíu og Svartfjallalands. Sneytt úran er ekki aðeins geislavirkt, heldur einnig baneitrað. Árið 2006 hafði krabbameinstíðni þegar hækkað um helming.

„Það er ekki neinn staður í heiminum þar sem svo mikið af fólki, og svo mikið af ungu fólki á þrítugs- og fertugsaldri, deyr úr krabbameini. Blóð- og lungnakrabbamein er algengast,“ er haft eftir Dr. Srbljak, forstjóra samtakanna Merciful Angel.

Þrátt fyrir að rúm 16 ár séu liðin frá loftárás NATO á Serbíu og Svartfjallaland eru afleiðingarnar ennþá til staðar. Það tekur um það bil milljarð ára fyrir úraníum að eyðast. Skuggi vofunnar mun í raun hvíla á Serbíu og Svartfjallandi að eilífu.

 

78 dagar

„Ég man vel eftir þessum 78 dögum. Þeim get ég aldrei gleymt. Þar sem ég var staðsett í bænum Nis, sem er í um það bil hálftíma akstursfjarlægð frá landamærum Búlgaríu þar sem NATO geymdi herþotur sínar, heyrði ég alltaf svakalegan hávaða þegar þoturnar voru að taka á loft. Ég hljóp um alla blokkina sem ég bjó í og varaði nágranna við. Við drifum okkur öll niður í kjallara og hlustuðum á landið okkar sprengt í tætlur. Óttinn er ólýsanlegur. Maður var í stresskasti allan daginn, allan sólarhringinn. Maður gleymdi að borða og drekka vatn. Hins vegar komu oft þeir dagar sem það var heldur ekki í boði. Ég var lengi að ná mér eftir árásina. Ég man að þegar árásinni var lokið labbaði ég um borgina og hún var öll í rúst. Árin á undan höfðu Vesturlönd sett viðskiptabann á landið. Ég vissi vel að ef ég ætlaði að eiga einhverja framtíð fyrir mér væri Serbía land sem hefði ekki upp á neitt að bjóða. Í dag er ég búin að búa á Íslandi í tíu ár. Ég er þakklát fyrir það að þurfa ekki að glíma við svipaðar áhyggjur aftur. Það tók mig hins vegar langan tíma að gleyma öllu og finna fyrir þessu öryggi sem ég finn fyrir á Íslandi. Hins vegar er það mín skoðun — og ég held líka að flestir aðrir sem upplifðu árásina séu sammála mér — að þangað til sá dagur komi að Atlantshafsbandalagið hafi verið dæmt fyrir stríðsglæpi gegn borgurum Serbíu og Svartfjallalands; fyrir mannfallið, eyðilegginguna á nánast landinu öllu og þeim eitruðu efnum sem hafa aukið krabbameinstíðni og fæðingartíðni vanskapaðra barna; munum við aldrei finna innri frið.“

 

Sprengja hjálpar ekki neinum

Við sem lítil, friðsæl þjóð þurfum að spyrja okkur margra spurninga áður en við lýsum yfir stuðningi okkar við NATO og íhlutun þeirra um allan heim. Hvort sem NATO hafi upprunlega verið stofnað sem varnarbandlag vegna ótta við Sóvetríkin, sýndi það fyrst með íhlutun sinni á Balkanskaga að Atlantshafsbandlagið væri orðið eitthvað allt annað en það skilgreinir sig. Þrátt fyrir að margar heimildir hafi ekki komist í umræðuna fyrr en nokkrum árum síðar, meðal annars niðurstöður rannsókna sem áttu sér stað eftir Kósóvó-stríðið, skýrslur Sameinuðu þjóðanna og Amnesty International sem og bók fyrrverandi yfirdómara Alþjóðadómstólsins, Cörlu Del Porte, um málefni fyrrverandi Júgóslavíu, sem hefur valdið alþjóðasamfélaginu miklu áfalli, er orðið „mannúðaríhlutun“ blekking. Því að sprengja hjálpar ekki neinum.

Síðan megum við ekki gleyma því hvernig ástandið lítur út dag í hinu „sjálfstæða“ Kósóvó.
Í skýrslu frá Amnesty International árið 2004 kemur meðal annars fram að eftir að Sameinuðu þjóðirnar og NATO tóku við Kósóvó hafi mansal, þar sem stúlkur eru oftast seldar í kynlífsþrælkun, og þrælahald aukist gífurlega.

Einnig hafa mannréttindi minnihlutahópa Serba, Roma-fólks, gyðinga og slavneskra múslima verið skert verulega og segja má að þessir hópar búi ekki við grundvallarmannréttindi. Í áðurnefndri bók Cörlu Del Porte bendir hún einnig á að Frelsisher Kósóvós hafi rænt fólki úr minnihlutahópum og selt líffæri þeirra á svörtum markaði.

Þrátt fyrir að Kósóvó hafi hlotið sjálfstæði frá Serbíu 2008, þá getur ríkisstjórn Kósóvó ekki tekið neina ákvörðun nema Vesturlönd (lesist: Bandaríkin) samþykki ákvörðunina.

Allir þrír forsætisráðherrar Kósóvó eftir að það varð sjálfstætt eru á sakaskrá. Allir hafa þeir verið á lista Interpol og allir tengjast þeir fíkniefnaviðskiptum. Einnig stunduðu þeir allir fjárplógsstarfsemi og allir hafa þeir tekið þátt í að fyrirskipa morð. Við ættum því einnig, burtséð frá íhlutun NATO, að huga að því hvort Kósóvó sé eftir allt saman eins og Vesturlönd vilja meina: friðsælt lýðræðisríki?