Hulda Hólmkelsdóttir

Talskona UVG

Á mínu nítjánda aldursári var ég í sumarvinnu í sveit. Ég vann 7-10 daga í einu og tók svo rútu heim og til baka á frídögum. Rútuferðin tók sirka 3 tíma. Mér hefur alltaf þótt mjög gaman að ferðast um landið en eðlilega fór ég að þreytast á öllu þessu rútubraski þegar líða tók á sumarið. Vatnsskarðið missti allan sjarma og túristarnir sem þvældust um rútuna til að ná sem bestum myndum af fjöllunum í kring byrjuðu að fara í taugarnar á mér þar sem ég sat með minn íslenska yfirlætissvip og hugsaði: „Æi, ég hef séð þetta allt áður.“ Síðasta haust keyrði ég suðurleiðina frá Reykjavík til Eskifjarðar og var eins og túristarnir í rútunni. Ég glápti út um gluggann eiginlega alla leiðina og trúði varla mínum eigin augum. Ég hafði ekki ferðast um þennan hluta landsins síðan ég var barn og ég talaði um það í marga daga á eftir hversu æðislegt hefði verið að sjá Jökulsárlón loksins almennilega, ekki bara á mynd. Fjarlægðin gerir fjöllin blá og allur sá djass.

 

Af skrímslum og mönnum

Sama ár og ég vann í sveitinni varð hljómsveitin Of Monsters and Men fræg. Little Talks kom út og ég man að ég varð yfir mig hrifin. Textinn talaði til mín þar sem að ég bjó í yfirgefinni símstöð þar sem var, að mér skilst, draugagangur. Að endingu fékk ég leið á Of Monsters and Men. Ég ofspilaði lagið. Ég reyni hins vegar ekki að neita því að OMAM hefur gert góða hluti fyrir Ísland. Þau hafa vakið athygli fólks á landi og þjóð og eru samtímis að vinna við það sem þeim finnst skemmtilegt. Það er frábært!

 

Hvort sem þú trúir á þau eða ekki

Ég skil ekki þetta fólk sem ætlar sér að virkja nær allt hálendi Íslands. Ég veit ekki hvort það missti af línunni „álfadrottning er að beisla gandinn, ekki er gott að verða á hennar leið“ þegar það var í hópsöng í grunnskóla. Kannski hefur það farið of oft í rútu milli Akureyrar og Hrútafjarðar undanfarin ár. Kannski er þeim bara alveg sama. En það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að til sé fólk sem er ekki sama og veit hvaða afleiðingar þetta hefur í för með sér. Það skiptir að sama skapi ekki máli þótt fólk trúi ekki á hlýnun jarðar vegna þess að hún er staðreynd. Eins og Neil deGrasse Tyson sagði svo eftirminnilega: „Það góða við vísindi er að þau eru sönn, hvort sem þú trúir á þau eða ekki.“

 

Kostir og ókostir

Við búum ekki lengur í torfkofum. Við þurfum ekki að ná í skottið á iðnbyltingunni til að lifa af. Við þurfum ekki að virkja aðra hverja sprænu. Það er svo ótal margt annað sem hægt er að gera til að lifa af hér á landi nútildags. Það kemur náttúrulega engum á óvart að Landsvirkjun og Orkustofnun vilji virkja. En við verðum að hætta að láta eins og þetta séu stofnanir sem eigi að hafa völd yfir okkur. Þær eiga ekki landið okkar. Við verðum að hætta að leyfa þeim að komast upp með að henda fram hugmyndum um „virkjanakosti” eins og það sé bara alveg sjálfsagt mál. Orkustofnun hefur afhent verkefnisstjórn rammaáætlunar 81 virkjanakost til umfjöllunar. Áttatíuogeinn! Eins og náttúran sé bara leikfang sem Orkustofnun megi leika sér með eins og henni hentar og svo komi mamma bara og lagi til þegar hún er búin að leika, fussandi og sveiandi yfir kjánaskapnum í litlu Orkustofnun. Nei, þannig virkar ekki heimurinn. Virkjanakostur er líka svo undarlegt orð. Það hljómar eins og það séu bara kostir við virkjanir. Ég vil ekki sjá Ísland þar sem allir vinna í verksmiðjum, virkjunum og álverum en enginn spilar tónlist. Vill það einhver? Já og svo er það spurningin: Hver á að vinna í öllum þessum blessuðu virkjunum? Ég þekki ekki mikið af fólki sem, aðspurt hvað það vilji starfa við í framtíðinni, svarar: „Nú, vinna í virkjun!“

 

Þjórsárver og Gullfoss

Mig langar að geta séð Þjórsárver, sem blessunarlega hefur tekist að bjarga frá eyðileggingu hingað til. Mig langar að sjá allt Ísland. Ekki bara Gullfoss og Geysi. Tja, reyndar er ein hugmyndin að virkja við Gullfoss svo að það skiptir svo sem ekki máli lengur. Jæja, ég hef allavega séð hann alveg tvisvar. Ætli það dugi mér ekki bara?

 

Hræsni

Við erum með jörðina í láni. Við getum ekki haldið áfram að koma fram við hana eins og hún þoli allt. Hún gerir það ekki. „There is no planet B.“ En þetta fólk, sem vill virkja allt, er sama fólkið og vill endilega rukka annað fólk fyrir að sjá náttúruperlur vegna þess að þar sé svo illa gengið um og fjármagn vanti til að vernda svæðin. Mér var kennt að slíkt kallist hræsni, líklega um það leyti sem ég fór að skoða Jökulsárslón í fyrsta skipti, sirka 4 ára gömul. Þingvellir eru nefnilega ekki eina landsvæðið á Íslandi sem hefur tilfinningalegt og sögulegt gildi fyrir Íslendinga.

En ég hvet ykkur, sem ætlið ykkur að eyðileggja náttúru Íslands, að muna að álfadrottning er að beisla gandinn og það er ekki gott að verða á hennar leið.